Verkir við blæðingar

15.09.2008

Sælar góðu konur og þakka ykkur fyrir dásamlegann vef.

Mig langar til að spyrja ykkur þar sem að ég finn enga sambærilega fyrirspurn í safninu. Er eðlilegt að vera með mikla verki í leginu við fyrstu tíðir eftri barnsburð?  Ég á 10 mánaða strák og var að byrja á blæðingum í seinustu viku, en ég er afskaplega aum eitthvað. Get ekki sest of hratt niður því þá er eins og eitthvað kremjist og ég fæ stingandi sársauka í legið. Það er eiginlega hætt að blæða hjá mér og blæðingarnar sjálfar voru ekki miklar. Ég man ekki eftir álíka verk við tíðir áður en að ég varð ólétt. Á ég að panta tíma hjá kvennsjúkdómalækni eða er svona fyllilega eðlilegt vegna aðstæðna?

Svo langar mig að bæta við stuðningi við kjarabaráttu ykkar sem stendur yfir þessa dagana. Stelpur; EKKI HNIKA! Fáið leiðréttingu á kjörum ykkar, því það er löngu tímabært.


Komdu sæl og takk fyrir hvatninguna.

Þú ættir að hafa samband við lækni og ræða þetta við hann.  Það er svo langt liðið frá fæðingu að ég get ekki séð að þetta tengist því með eðlilegum hætti.  Það þyrfti líka að fá nánari upplýsingar um hvort þessir verkir koma bara við blæðingar eða hvort þú finnur fyrir þessu á öðrum tímum líka, hversu mikið þú varst saumuð og sennilega þarf að skoða þig líka.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
15. september 2008.