Spurt og svarað

18. júní 2005

Vond lykt eftir barnsburð

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég er í pínu vandræðum. Málið er það að ég átti barn fyrir 5 vikum síðan og gekk það mjög vel en ég rifnaði örlítið og var saumuð. Ég fór í eftirskoðun í gær því að mér hefur fundist frekar vond lykt. Læknirinn sagði að þetta liti allt vel út og væri allt í góðu lagi, ég þorði ekki að segja honum að það væri vond lykt að neðan og var að velta fyrir mér hvort hann mundi ekki sjá ef það væri einhver sýking? Ég þorði hreinlega ekki að segja honum það þegar ég var komin á staðinn; ( Getur verið að það komi vond lykt að neðan svona fyrst eftir fæðingu? Mér líður illa útaf þessu og er alltaf í sturtu því mér finnst ég eitthvað svo óhrein..... Vona að þið getið svarað einhverju af þessari vitleysu minni. Kær kveðja ein feimin

...........................

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina sem er engin vitleysa!

Lykt af úthreinsun eftir fæðingu er dálítið sérstök. Hún á hins vegar ekki að vera þannig að þér líði illa útaf henni. Hafir þú ekki sagt lækninum frá áhyggjum þínum af lyktinni þá hefur hann kannski ekki verið að skoða ástæðu illa lyktandi útferðar heldur kannski fyrst og fremst hvernig sár þín hafa gróið.

Ef þú hefur ekki verki neðarlega í kvið, ekki hita og blæðing er ekki óeðlileg þá gengur lyktin af úthreinsuninni trúlega yfir. Ef hún lagast ekki á næstu dögum þá mæli ég með að þú farir aftur til læknisins og segir honum frá þessum einkennum því vond lykt getur orsakast af sýkingu.

Gangi þér vel,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
18. júní 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.