Þvagleki eða?

01.02.2006
Sælar og takk fyrir aldeilis frábæran vef!
Ég eignaðist son fyrir tæpum 10 mánuðum og rifnaði ansi illa uppi í  leggöngunum.  Núna þegar ég er í ræktinni þá finnst mér eins og leki úr leggöngunum þegar ég hoppa, t.d. þegar ég sippa.  Getur það verið eða er líklegra að þetta sé þvagleki.  (Eins á ég erfitt með að stjórna vindgangi).  Mig langar svo að vita hvort það sé til leggangaleki eða hvort þetta sé "bara" þvagleki.
Þetta hefur alla veganna hvatt mig til dáða við grindarbotnsæfingarnar.
 
....................................................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Þetta er sennilegast þvagleki og það að þú átt erfitt með að stjórna vindgangi styður það.  Vertu bara áfram dugleg við grindarbotnsæfingarnar.  Það getur líka verið viturlegt að geyma hoppið þangað til grindarbotninn er orðinn sterkari.
 
Kveðja
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
01.02.2006.