Spurt og svarað

30. ágúst 2007

Þvagleki viku eftir fæðingu

Ég er 18 ára gömul og eignaðist strák fyrir viku síðan. Hann var mjög stór (tæplega 19 merkur) en fæðingin gekk samt mjög hratt og vel fyrir sig. Ég fékk grunna 2 gráðu rifu og ég held að saumarnir séu að gróa ágætlega. En málið er það að ég missi þvag. Ég bara veit ekki hvenær ég þarf að pissa og það lekur bara út. Ég hef verið að reyna að gera grindabotnsæfingar en ég hef bara ekki heyrt um neina sem hefur lent í þessu. Hvað má ég búast við að þetta ástand vari lengi? Þetta er mjög skömmustulegt og ég þarf að vera í nánast bleyju og fara á klósettið á u.þ.b. klukkutíma fresti og láta leka í klósettið og skipta um bindi.

Svo er það gullmolinn minn, hann var í smá erfiðleikum með að taka brjóstið í fyrstu en það er allt að koma núna. En hann vill fá að drekka á u.þ.b. 1½ til 2ja tíma fresti yfir daginn. Er það allt í lagi? Svo á næturnar þá sefur hann kannski í 6 tíma án þess að drekka. Hann sefur líka mjög takmarkað yfir daginn.

Takk fyrir vefinn:)


Komdu sæl og til hamingju með barnið!

Það er eðlilegt, að þú skulir vera áhyggjufull út af þessum þvagleka enda viðkvæmt vandamál, sem konum reynist oft erfitt að tala um eða segja frá. Frábært að þú skulir hafa kjark í þér til að leita þér upplýsinga um það. Þvagleki er talinn vera töluvert algengt vandamál, sem kemur fyrir konur á öllum aldri og þá einkum í tengslum við meðgöngu og/eða fæðingu. Talað er um þrenns konar þvagleka þ.e. áreynsluleka (algengastur), bráðaleka og blandleka. Áreynsluleki kemur fram við hósta, hnerra eða líkamlega áreynslu. Bráðaleki einkennist af knýjandi þvagþörf og viðkomandi kemst ekki nógu fljótt á salerni. Blandleki er svo sambland af bæði áreynslu-og bráðaleka. Þvagleki lagast hjá meiri hluta kvenna á nokkrum vikum til mánuðum eftir fæðingu en getur orðið langvarandi vandamál hjá öðrum. Það hefur ekki verið sýnt fram á neina beina orsök fyrir þvaglekanum, heldur er talið, að um nokkra samverkandi þætti geti verið að ræða, sem tengjast meðgöngu og fæðingu. Í þínu tilviki beinist athyglin að fæðingunni, þar sem þvaglekinn kemur fram strax eftir fæðinguna og þú nefnir ekki að hafa upplifað þvagleka á meðgöngunni. Þú fæðir stórt barn og hlýtur 2° spangarrifu í fæðingunni, sem hvort tveggja eru áhættuþættir fyrir þvagleka eftir fæðinguna. Niðurstöður taugarannsókna hafa sýnt fram á taugaskaða í vöðvum í grindarbotni og hringvöðva þvagrásar vegna áverka í fæðingu t.d. vegna þrýstings frá höfði barnsins og rifum, sem geta valdið starfrænum skaða í grindarbotni og leitt til þvagleka. Mér heyrist þetta vera fremur slæmt hjá þér og átta ég mig ekki á hvers konar þvagleki hrjáir þig hvort það er áreynslu-, bráða- eða blandleki. Til þess þarftu að fara til læknis í nánari greiningu en vonandi hefur nú þegar dregið úr lekanum hjá þér og þú áttar þig kannski á því sjálf hvers kyns er. Þér er líka óhætt að leita til hjúkrunarfræðigsins í ungbarnaverndinni ykkar vegna þessa máls. Eins og ég nefndi áður gengur þetta til baka í flestum tilvikum innan nokkurra mánaða og er mikilvægt að vera duglegur að gera grindarbotnsæfingar á meðan og helst alla tíð, sem hjálpa til við að styrkja grindarbotnsvöðvana m.a. til að halda utan um leggöng og þvagrás. Já, þetta ferli krefst mikillar þolinmæði. Ef um bráðaleka er að ræða gagnast oft svokölluð blöðruþjálfunarmeðferð, sem þú fengir upplýsingar um hjá viðkomandi lækni/hjúkrunarfræðingi, ef um það er að ræða. Síðan má ekki gleyma að hugsa almennt vel um líkama og sál og gera það sem í þínu valdi stendur til að vera heilbrigð og þar á ég við heilsusamlegt mataræði, skynsamlega hreyfingu og reglulegt líferni og nægan svefn (hvíla þig þegar barnið sefur). Það er líka mikilvægt að fara út og hitta vini og ættingja og gera eitthvað jákvætt fyrir sjálfa þig, þegar lengra líður frá fæðingunni.

Ég veit að þetta vandamál truflar þig mikið en reyndu að vera bjartsýn og jákvæð, því þá gengur oft betur að takast á við vandamálin og yfirvinna þau. Þetta kemur allt með tímanum, þolinmæði og samviskusemi. Ef þetta hefur ekki lagast neitt á næstu þremur til sex mánuðum er rétt að leita læknis en þú getur jú leitað til heilsugæslunnar hvenær sem þér sýnist ef þér finnst þetta vera óyfirstíganlegt. Varðandi brjóstagjöfina er ekki óeðlilegt að drengurinn drekki þetta oft á meðan þið eruð að finna ykkar takt, svo framarlega sem hann er að þyngjast eðlilega og það jákvæða er að hann sefur í sex tíma samfleytt yfir nóttina.
 
Gangi ykkur vel með þetta verkefni. 

Kær kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
30. ágúst 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.