Spurt og svarað

01. maí 2008

?Vax? í brjóstum og kúla á naflastreng

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Eignaðist barn á síðasta ári, brjóstagjöfin gekk vægast sagt frekar illa, svo var líka margt í gangi á þessum tíma sem hafði áhrif, þannig að ég var ekki með barnið lengur en fyrstu 6 vikurnar, þá gat ég ekki meir, en eftir að ég hætti með hann á brjósti þá hefur alltaf komið hvít skán úr öðru brjóstinu svona eins og vax. Önnur geirvartan er innfallin og það kemur þeim megin, sú geirvarta er einnig miklu ljósari á litinn.Tek það fram að skánin er hvít á litin. Fór til læknis svo og hann sagði að þetta væri eðlilegt og gaf mér mjólkurstoppandi töflur, get svo sem ekki sagt hvort þær hafi virkað því ég var orðin ólétt 2 vikum seinna og þá fóru brjóstin aftur að stækka og þá hélt þetta áfram.
Fór svo til ljósmóður þar sem ég er flutt erlendis og hún vildi meina að þetta væri kallað vax í brjóstum og það stoppaði brjóstamjólkina frá því að leka og að þetta væri eðlilegt. En það sem truflar mig að ég á nú töluvert margar vinkonur sem eiga börn og þær hafa aldrei einu sinni heyrt um þetta, þannig að ég var að spá hvort þetta væri eðlilegt. Ef já; Af hverju kemur þetta þá bara aðeins í öðru brjóstinu? Reyndar kemur smá núna í hitt brjóstið en mjög sjaldan. Hvað er eðlilegt að þetta sé lengi eftir brjóstagjöf?

Svo langar mig að spyrja að einu í viðbót. Þegar ég átti barnið mitt, þá var naflastrengurinn alveg eðlilegur nema svona 10 cm frá naflanum. Ég veit ekki hvernig er best að lýsa þessu, en þar kom bara kúla út, eins og á 7 cm svæði þar væri lítil blaðra inn í naflastrengnum og þetta var svona eins og egg að stærð. Mér fannst eiginlega ótrúlegt að naflastrengurinn hafi ekki gefið eftir og slitnað undan þessu. Getið þið sagt mér af hverju svona gerist? Svona eins og það verði stífla í naflastrengnum? Get sent ykkur mynd ef þess þarf. Ljósmóðirin sem tók á móti sagðist ætla að spyrja út í þetta, þrátt fyrir að hafa langa reynslu þá hafði hún ekki séð svona áður, en svo var hún með mig í heimaþjónustunni og fór svo í sumarfrí, þannig að þetta eiginlega gleymdist bara. Núna er ég ófrísk aftur og þótt ég viti að það sé nýr naflastrengur núna þá samt truflar þetta mig svolítið, þ.e.a.s. ef þetta gerist aftur og naflastrengurinn hjá næsta barni myndi gefa eftir. Hvað þá?

Með fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð.

Það sem þú ert að lýsa er bara mjólk sem kemur úr brjóstinu. Þegar mjólk er búin að liggja lengi í ystu göngum mjólkurganganna ummyndast hún gjarnan í hálfgerðan ost. Þannig verður hún næstum að föstu efni sem getur líkst litlum fitukúlum. Ég hef aldrei heyrt þetta kallað vax. En þetta er ekkert óalgengt og svo sem ekkert sérstaklega algengt heldur. Og vissulega er þetta ekkert óeðlilegt. Þetta er stundum öðru megin, sjaldnar báðu megin, stundum í kirtlunum á vörtubaugnum en þetta getur haldið áfram mánuðum saman og því lengur þeim mun oftar sem þetta er kreist út. Aðalatriðið er að þú látir þetta bara vera og leyfir náttúrunni að undirbúa brjóstin á sinn hátt eins og hún greinilega að gera.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. maí 2008.

Varðandi naflastrenginn þá er ekki viss um hvað þú ert að tala um. Þú mátt gjarnan senda mér mynd af þessu í tölvupósti á annasigga@ljosmodir.is og ég gæti þá spurst fyrir.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
1. maí 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.