35 ára mamma

19.04.2011

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég er að velta því fyrir mér hvort ég sé orðin of gömul til að eignast annað barn. Við hjónin eigum stúlku á 9. ári sem er með þroskahömlun og ADHD og erum að huga að öðru barni. Hún var tekin með bráðakeisara, fékk meðgöngueitrun á 31. viku. Ég treysti mér ekki til að fæða venjulega, yrði að fara í keisara aftur. Er með mikla kvíðaröskun. Og að lokum er ég kannski orðin of gömul?

Kveðja, Miðaldra mamma.


Sæl og blessuð!

Það er nú auðvelt að svara síðustu spurningunni þinni, auðvitað ertu ekki orðin of gömul. Eins og þú eflaust veist þá minnkar frjósemin með aldrinum svo það er ekki gott að bíða allt of lengi ef þið eruð að velta þessu fyrir ykkur. Ég held að þú hefðir gott af því að ræða við fagaðila um síðustu fæðingu og fleira sem viðkemur næstu meðgöngu og fæðingu. Ég sting upp á því að þú pantir þér tíma hjá fæðinga- og kvensjúkdómalækni til að ræða þessi mál.

Vona að allt gangi vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. apríl 2011.