Spurt og svarað

12. janúar 2009

3ja mínútna reglan

Góðan dag.

Ég er með 5 mánaða stúlku (er eingöngu á brjóstamjólk) sem er nýlega farin að taka upp á því að sofna ekki sjálf í rúminu sínu. Hingað til hefur hún alltaf sofnað sjálf, ég byrjaði snemma á að vera með sömu rútínuna á hverju kvöldi og alltaf sofnaði daman eins og ekkert væri.  Hún fer tvisar sinnum útí vagn yfir daginn og sofnar eins og ekkert sé, tekur þá snuðið og sefur eins og steinn.  Á kvöldin er það svo önnur saga, hún spennir sig alla upp þegar ég legg hana í rúmið sitt, grætur sárt og rífur snuðið útúr sér.  Ég veit að það er ekkert vont sem er að hrjá hana þótt hún gráti, því um leið og ég gefst upp og fer með hana fram þá brosir hún allan hringinn og er sátt!  Síðastliðnar tvær vikur hef ég endað á því að vefja hana þétt inní sæng og gengið um gólf þar til hún sofnar.  Ég hef jafnvel þurft að enda á því að svæfa hana á brjóstinu.  Hún er líklega farin að átta sig á því að það virkar vel að gráta því þáfær hún að liggja á brjóstinu og nánast nota það sem snuð þar til hún sofnar.   Nú þarf ég að taka í taumana og setja henni ''''mörk'''' en ég hef lesið greinarnar hér á vefnum um svefnvenjur og ætla að prófa 3 mínútna regluna, mig langaði að kanna hversu lengi ég á að endurtaka leikinn.  Ef hún sofnar ekki eftir fyrsta klukkutímann á ég þá að halda áfram!  Það stendur líka að maður megi taka barnið upp á einhverjum tímapunkti - er ég þá í rauninni ekki komin aftur á byrjunarstig ef ég geri það?  Á ég að láta hana gráta eins lengi og þarf og gefast ekki upp, eða eru einhver tímamörk sem ég ætti að setja.

Með fyrirfram þökk og með von um að reglan eigi eftir að hjálpa...með sól í sinni....


Góðan daginn.

Þetta hljómar svolítið eins og aðskilnaðarkvíði nema hann kemur venjulega ekki fram alveg svona snemma.  Fyrst hún var dugleg að sofna sjálf ætti hún að vera fljót að læra það aftur.  Fyrsta reglan er að taka hana ekki upp og alls ekki fara með hana út úr herberginu.  Ef þú ert viss um að ekkert sé að, eins og bendir til þegar hún er alsæl þegar hún er tekin upp, þá er bara að láta hana gráta og koma inn á 3ja mínútna fresti þar til hún gefst upp og sofnar.  Það getur verið að hún gráti lengi fyrsta kvöldið og enn lengur næsta en svo ætti hún að fara að skilja þessa nýju reglu og sofna sjálf.

Mildari aðferð er að vera inni hjá henni og halda í hendi eða höfuð en snúa frá henni og gera ekkert annað en sussa og segja sofa af og til.  Þá færir þú eða pabbinn þig frá henni smám saman þar til þið eruð komin útúr herberginu og hún fer að sofa sjálf.  Þetta getur tekið aðeins lengri tíma en er ekki eins harkalegt.

Það getur verið gott ef pabbinn tekur að sér þessa þjálfun þar sem hún getur ekki fengið sömu þjónustu hjá honum eins og hún hefur verið að fá frá þér ( að liggja á brjósti þar til hún sofnar ).

www.foreldraskóli.is veitir svefnráðgjöf á netinu og eru með símatíma líka fyrir foreldra svo ég bendi þér á að skoða það ef þetta virkar ekki.

Gangi ykkur vel, kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
12. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.