Spurt og svarað

22. júní 2008

5 mánaða og enn með í maganum

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Sonur minn sem er 5 mánaða gamall hefur verið með magaóþægindi frá fæðingu sem hann er ekki kominn yfir. Þetta hefur lýst sér með óværð og miklum loftgangi (oft illa lyktandi). Hann engist áður en hann nær að leysa vind og róast stundum við það en stundum ekki. Hann hefur alltaf sofið vel á nóttunni en nú er svo komið að hann er farinn að vakna upp grátandi án þess að vera svangur, leysir vind og sofnar aftur. Þessu fylgir núorðið ekki mikill grátur en þó tekur hann rispur þar sem hann orgar af sársauka. Yfir daginn sefur hann oftast í stuttum dúrum en er gjarnan órólegur þess á milli og sofnar seint á kvöldin (milli 23 og 24) en eins og ég nefndi þá sefur hann oftast vel á nóttunni. Hef farið með hann til barnalækna sem segja allt vera í góðu með stráksa og þetta gangi yfir. Þegar hann var u.þ.b.3ja vikna fékk hann zantag en það virtist litlu breyta. Mér finnst hann orðinn heldur gamall til að eiga í þessu magabasli svo ég bið um ráð. Mig langar líka að spyrja ykkur um brjóstamjólkina. Eru einhver dæmi um að börn þoli hana ekki? Málið er að eldri konur hafa hvatt mig til að hætta með hann á brjósti því hann þoli mjólkina úr mér kannski ekki, þannig hafi það stundum verið! Þetta ráð hef ég látið sem vind um eyrun þjóta en vantar rök ef minnst verður á þetta við mig aftur. Takk og kveðja.

Hann hefur ekkert fengið annað en brjóstamjólk. Hann ropar oftast eftir gjafir en það virðist þó litlu breyta. 

Annað sem mig langar að minnast á alveg ótengt er varðandi utanlandsferðir sem ég sé að spurt hefur verið um. Ég var í sólarlöndum með litla kútinn minn og þar fannst mér alveg ómetanlegt að vera með pokavafning (Moby) sem ég hafði hann í ef hann varð leiður á kerrunni. Í þessum vafningi er hægt að búa þannig um börnin að engin sól komist nálægt viðkvæmri húðinni.

Kveðja.


Sæl og blessuð.

Ég get ekki séð í fljótu bragði að vandamálið tengist neitt brjóstagjöfinni. Það er gott að þú ert með hann eingöngu á brjósti fyrst hann er svona viðkvæmur. Það er ekki skemmtilegt að hugsa til þess hvernig hann væri ef hann væri það ekki. Varðandi gjöfina þá get ég bara ráðlagt þér að gefa fyrra brjóstið nógu lengi a.m.k. 10 mín. áður en þú skiptir (ef þú skiptir). Svo gæti verið reynandi fyrir þig að taka allan mjólkurmat úr þínu fæði í 10 daga og sjá hvort eitthvað breytist.

Varðandi eldri konurnar þínar þá geturðu sagt þeim að börn sem eru viðkvæm í maga þola móðurmjólkina sína best af allri fæðu. Að bjóða þeim mjólk annarrar dýrategundar er bara til að gera illt verra. Ef þér finnst síðan barninu líða óeðlilega illa þá ráðlegg ég þér að fara aftur til barnalæknis.

Og að lokum þá vil ég þakka þér fyrir gott ráð varðandi ungabörn í sólarlandaferðum.

Vona að þér gangi vel.                       

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. júní 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.