9 mánaða og skríður ekki

11.03.2009

Komið þið sælar!

Ég á 9 mánaða gamlan dreng sem er ekki byrjaður að skríða. Hann kann því illa að vera á maganum. Ég set hann þó á magann reglulega og þá reigir hann sig og teygir í smá stund og verður svo grautfúll. Hann var farinn að sitja 6 mánaða og er með góðar fínhreyfingar. Eina sem ég velti fyrir mér er þetta með skriðið. Ég set hnén undir hann og reyni að vekja áhugann en það vekur ekki mikla lukku. Hann vill gjarnan standa með aðstoð, finnst það heilmikið fútt, er rúm níu kíló svo ekki er það yfirþyngd sem veldur þessum rólegheitum. Hann mjakar sér heldur ekki á rassinum nema til að snúa sér.


Komdu sæl.

Ef allur hreyfiþroski er eðlilegur eins og mér sýnist vera, hann snýr sér, stendur, situr o.s.frv. mundi ég ekki hafa miklar áhyggjur þó hann skríði ekki.  Sum börn gera það ekki, önnur mjaka sér á rassinum eða maganum eða velta sér til að komast þangað sem þau þurfa að komast.  Það getur verið ágætt að þjálfa hann t.d vera með dót sem er rétt utan seilingar og fá hann til að ná því.  Eða koma til mömmu eða eitthvað slíkt ef hann hreyfir sig ekkert úr stað. 

Kannski ætlar hann bara að sleppa skriðinu og fara beint að labba.

Ef þú hefur áhyggjur skaltu tala um það við hjúkrunarfræðinginn þinn og lækninn í ungbarnaverndinni sem geta metið hreyfiþroskan hans betur.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
11. mars 2009.