Spurt og svarað

12. september 2006

Á að gefa graut eða ekki?

Nú er ég með einn 5 mánaða, sem ég í trássi við ljósuna mína fór að gefa graut þegar hann var ekki nema 3 og ½ mánaða. Þannig var, að ef hann var enn svangur eftir pelagjöf og ég gaf honum meiri mjólk, þá gerðist ekkert annað en það að hann gubbaði henni bara, virtist engan veginn líða betur. Þá brá ég á það ráð að gefa honum Semper graut, rísmjöls með bananabragði. Ég geri það alltaf eftir venjulega pelaskammtinn og aldrei ælir hann, allavega ekki eins og eftir aukamjólkina. Síðan fór ég að gefa honum ávexti eftir pela, kannski eina krukka á dag og geri enn. Grautinn fær hann einnig einu sinni á dag. Að vísu virtist hann ekki vera að þyngjast nóg í 4 mánaða skoðuninni, en hann er alveg afskaplega vært barn og líður greinilega mjög vel.

Ljósmæður tala alltaf um að það eigi ekki að gefa börnum graut eða aðra fæðu fyrr en við 6 mánaða aldur, því vil ég spyrja: Hvers vegna er framleiddur matur fyrir börn frá 4 mánaða, fyrst hann er ekki talinn æskilegur? Semper er sænsk framleiðsla og ég veit að þeir eru algjörir snillingar í öllu sem viðkemur fæðuvali hjá börnum. Eru það t.d. ekki þeir sem koma með stærðarkúrfuna? Gaman væri að fá að heyra svör við þessu.

p.s. ég vil taka fram að drengurinn minn er fæddur rúm 21 mörk og hefur alltaf verið u.þ.b. 6 cm yfir meðallagi á lengdarkúrfunni. Sem sé, stór drengur með stóran maga. ;)

Með kveðju.


Sæl og blessuð.

Það eru aðallega 2 ástæður fyrir því að ungbarnamatur er framleiddur fyrir svo ung börn. Sums staðar er aldur fyrirbura mældur frá þeim tíma sem þau hefðu átt að fæðast. Það þýðir að barn sem er 4ra mánaða samkvæmt þeirri mælingu geta verið orðin 6 mánaða eða eldri samkvæmt okkar venjulegu skilgreiningu. Þessi skilgreining er yfirleitt ekki notuð hér á landi en þessi matur er erlend vara. Hin ástæðan er sú að verið er að svara markaði sem virðist vera fyrir hendi þrátt fyrir skýr fyrirmæli frá ljósmæðrum, öðru heilbrigðisstarfsfólki og heilu heilbrigðisstofnununum innlendum sem erlendum. Það kemur ekki fram í bréfinu hvort barnið fær brjóstamjólk eða þurrmjólk en miða við að þú nefnir pela geri ég ráð fyrir að það fái þurrmjólk. Af henni þurfa börn stærri skammta en af brjóstamjólk og þá er alltaf sú hætta fyrir hendi að þau gubbi frekar. Varðandi nýju stærðarkúrfuna þá get ég fullvissað þig um að enginn framleiðandi þurrmjólkur eða nokkurrar annarrar ungbarnafæðu kemur þar nokkurs staðar nærri.

Kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.