Á ég að byrja að gefa drengnum mínum graut?

07.08.2007

Halló og takk fyrir þennan ágæta vef.

Ég er með einn 5 og ½ mánaða gamlan dreng sem hefur eingöngu verið á brjósti. Hann fæddist 3000 gr en er núna um 8,5 kg. Hann er með vélindarbakflæði og tekur Santack síróp við því (höfum mikið verið uppi á barnadeild Hringsins því að hann blánar mikið og hættir jafnvel að anda). Mér var sagt að byrja að gefa honum graut þar sem að það er oft betra fyrir ungabörn með vélindarbakflæði að fá fasta fæðu. En hér á vefnum er alltaf talað um að börnin verði helst að vera á brjósti til 6 mánaða aldurs. Ég hef miklar áhyggjur af þessu en vil samt gjarnan byrja að gefa honum graut ef það hjálpar honum eitthvað með þetta bakflæði? Hvað segið þið við þessu? Er í lagi að byrja að gefa litla krílinu mínu graut?


Sæl og blessuð!

Nú veit ég kannski ekki nóg um þitt einstaka tilfelli til að geta ráðlagt þér. Það stendur þó óhaggað að brjóstagjöf eingöngu í 6 mánuði er það sem er talið börnum fyrir bestu. Sum börn þroskast þó aðeins fyrr en önnur og eru þá tilbúin til að fara að borða. Þetta er nokkuð sem læknirinn þinn ætti að geta séð og líka þú. Ég veit að stundum er gripið til grautargjafar við vélindabakflæði sem örþrifaráð ef börnin þyngjast ekki en samkvæmt því sem þú segir er það ekki raunin í þínu tilfelli. Þannig að það er í raun þitt að velja hvort þú þraukar áfram í 2 vikur eða ekki. 

Vona að þetta hjálpi.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. ágúst 2007.