A- og D vítamínþörf í sólinni

05.03.2008

Er staðsett í miðausturlöndum með 3ja og hálfsmánaða gamla dóttur í u.þ.b. 25 stiga. Ljósmóðir heima sagði mér að ég gæti hætt að gefa henni Aog D dropana vegna sólarljóssins því hún myndi fá nóg D vítamín af sólinni.  Er einhver lágmarks tími sem sólarljósið þarf að skína á hana til þess að uppfylla nægan D-vítamín skammt? Hvað get ég gert til að hún fái einnig nægjanlegan A- vítamín skammt þar sem hún er ekki að taka þessa dropa? Mér skilst að í móðurmjólkinni fái hún ekki nóg af A og D vítamíni. Að lokum er ég að velta því fyrir mér hvort ég megi taka Imedeen töflur þar sem ég er með barn á brjósti?

Kveðja, Herdís.Sæl og blessuð Herdís.

Það er reyndar svo að móðurmjólkin inniheldur nægilegt A og D vítamín fyrir börn á brjósti ef móðirin er vel nærð. Það þarf þó að passa að börn fái eitthvað sólarljós á sig. Þú ert nú aldeilis í góðri aðstöðu til þess. Barnið þarf að fá á sig 30 mínútur af sólarljósi á viku ef það er aðeins á bleyju eða 2 klst. á viku ef það er fullklætt án höfuðfats. Af A vítamíni þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur. Það er jafnvel svo að A vítamín úr móðurmjólk safnast í lifur barnanna og heldur áfram að hafa góð áhrif eftir að barnið hættir á brjósti.  Imedeen töflur eru fæðubótartöflur. Þær ætti að vera í lagi að taka en þú passar að fara ekki yfir ráðlagðan skammt.

Kveðjur til ykkar í sólinni,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. mars 2008.