Kláðamaur

05.11.2012

Núna er ég gengin 28 vikur og vorum við að fá þær fréttir að eldri sonur og faðir hans eru með kláðamaur, síðustu 4 vikurnar hefur okkur mæðgurnar (6ára dóttir) klæjað mikið og með sömu einkenni og feðgarnir. Strákurinn hefur komið til okkar fyrir og á þessum tíma, deilt rúmi, handklæðum og fleira, þá kemur spurningin, er mér óhætt að fara í kremmeðferð svona langt gengin, eða eru önnur úrræði í boði handa mér?

Sæl

Því miður er ekki hægt að meðhöndla kláðamaur með öðru en kremmeðferð, hann hverfur ekki af sjálfu sér og getur valdið langvinnum húðsjúkdómi ef hann er ekki meðhöndlaður. Samkvæmt fylgiseðli lyfsins sem er algengast, eru ekki nægjanlegar upplýsingar til um notkun lyfsins á meðgöngu. Ég mæli með því að þú ráðfærir þig við lækni í heilsugæslunni varðandi notkun lyfsins en eitthvað er um að kremið hafi verið notað á meðgöngu.Hinsvegar fann ég engar rannsóknir sem mæla gegn meðferð á meðgöngu. Þegar við notum lyf á meðgöngu þurfum við alltaf að meta kosti þess og galla. Ef til vill eru kostir þess að meðhöndla ykkur mæðgur fleiri en gallarnir og óþægindin sem sníkjudýrið veldur ykkur.

Gangi þér vel.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. nóvember 2012