Spurt og svarað

17. október 2011

A-vítamín í Daily Vits

Sæl, og takk fyrir góða heimasíðu ;)

Ég er komin um 8 vikur á leið og er að taka vítamín frá Now sem að heitir Daily Vits og þar stendur að það innihaldi 4000 IU af A-vítamíni. Er það rétt að það sé eitthvað um 100 míkrógrömm eða er ég að taka allt of mikið af A vítamíni? Það eru 400 míkrógrömm af fólinsýru í því en ég er að hafa áhyggjur af A vítamíninu ;)

Kveðja, Malla.


Sæl Malla!

Hlutverk A-vítamíns er m.a. að stuðla að vexti og viðgerð fruma, berjast við sýkingar og smíða RNA.  A-vítamín er mikilvægt fyrir augun, sérstaklega nætursjónina og einnig fyrir efnaskipti próteina.  A-vítamín er m.a. að finna í lifur, nýrum, fiskolíum, eggjum, mjólkurvörum, apríkósum, spergilkáli, gulrótum, steinselju, grænu blaðgrænmeti og öllu gulu grænmeti.

Ástæðan fyrir því að ekki er ráðlagt að neyta A-vítamíns í meira mæli en ráðlagðir dagskammtar segja til um er sú A vítamín er fituleysanlegt vítamín sem safnast fyrir í líkamanum og fer yfir fylgjuna.  Of mikil neysla A-vítamíns móður getur valdið fósturskemmdum og vitað er um tilfelli þar sem útkoma meðgöngu reyndist óhagstæð vegna of mikillar inntöku móður á A-vítamíni en í þeim tilfellum var neyslan meira en 7.500 µg. á dag sem er næstum því tífaldur ráðlagður dagskammtur.

A-vítamín er til á tvenns konar formi þ.e. retinol og beta-karótein.  Retinol er það form sem er tilbúið til að nýtast líkamanum sem A-vítamín en það fæst með fæðu úr dýraríkinu.  Beta-karótein er hins vegar efni sem fæst úr jurtaríkinu og umbreytist í retinol þegar líkaminn þarf á því halda.  Beta-karótein er ekki skaðlegt þó þess sé neytt í miklu mæli. 

Í þessu tiltekna vítamíni er A-vítamínið bæði í formi retinols (4000 IU) og beta-karóteins (1000 IU, samtals 5000 IU. Áður fyrr var A-vítamín gefið upp í þessum alþjóðaeiningum (a.e. eða I.U. (international units) en nú er magn þess yfirleitt gefið upp í míkrógrömmum (µg) retínóljafngildis (RJ), 1 µg RJ samsvarar 3,33 a.e. (IU).  

Þetta er svolítið snúið. Samkvæmt vef Lýðheilsustöðvar er mælt með 800 RJ á dag fyrir konur á meðgöngu. Ef við reiknum út þessar 4000 IU sem eru á formi retinols gera það 1200 RJ eða µg sem er talsvert meira en mælt er með. Víða erlendis er reyndar gefið upp að ráðlagður dagskammtur sé 5000 IU en það er eitthvað mismunandi eftir löndum.  

Miðað við íslenskar ráðleggingar, get ég ekki betur séð en þetta sé of mikið af A-vítamíni. Ég sé heldur ekki ástæðu til þess að taka inn ráðlagðan dagskammt af A-vítamíni því það verður líka að gera ráð fyrir að fá A-vítamín úr fæðunni sem er jú besta uppspretta vítamína.

Vítamínkveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
17. október 2011.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.