Spurt og svarað

13. júlí 2004

ACD-dropar eða sólböð?

Ég er með einn 10 vikna og hef ekki gefið honum ACD dropa. Fékk þau svör í ungbarnaeftirliti að ég gæti alveg eins haft hann smá stund í sólinni þannig að hann fengi D vítamínið. Mér finnst samt einhvern vegin eins og ég eigi að gefa honum dropana. Eru þeir nauðsynlegir og er ég orðin of sein til þess að byrja á því að gefa honum þá? Síðan er annað ég hef heyrt að þetta fari í magann á þeim. Hann var með magakveisu fram til 6 vikna en fór síðan minnkandi eftir þann tíma. Er hætta á að það endurtaki sig ef ég gef honum dropana. Ég er ekki alveg tilbúin í kveisu pakkann aftur.

Með fyrirfram þökk,
kveðja AS.

........................................................................

Komdu sæl AS og takk fyrir fyrirspurnina!

Þar sem við búum á norðlægum slóðum og lítillar sólar nýtur er talið nauðsynlegt að gefa ungbörnum A og D vítamín frá fjögurra vikna aldri til að koma í veg fyrir hörgulsjúkdóma eins og beinkröm. D-vítamínið er nauðsynlegt til að kalkið nýtist úr fæðunni og komist í beinin. Fyrstu ár ævinnar eru beinin að vaxa mikið og þéttast og því skiptir miklu máli að ungbörn fái bæði nægilegt kalk og D vítamín til að koma í veg fyrir að beinin bogni, þegar barnið fer að ganga.  A-vítamínið er einnig talið mikilvægt fyrir vöxt barnsins og ónæmiskerfi þess. Hér eru nú á markaðnum ACD dropar, sem innihalda A og D vítamín auk C-vítamíns. Ráðlagt er að gefa 1ml á dag (1ml inniheldur 20 dropa ) en hægt er að byrja rólega t.d. með því að gefa fyrstu 2-3 dagana 5 dropa á dag, næstu 2-3 daga 10 dropa og þar næst 15 dropa og loks 20 dropa daglega, upp frá því. Þú ert ekkert orðin of sein að byrja að gefa barninu ACD dropana og mátt byrja á því núna. Það hefur varla viðrað mikið til sólbaða fyrir ungbörn hér í sumar enda eru sólargeislarnir óhollir húðinni (húðkrabbameinsvaldur) og brýnt er fyrir foreldrum að nota sólarvörn á húð barna sinna til að verja hana sólbruna og skaða. Það er rétt hjá þér, að það þekkist að börn geti fengið ónot í maga af dropunum en þá er í lagi að draga aðeins í land og minnka skammtinn í stuttan tíma og prófa svo aftur að auka hann að þeim tíma liðnum. Grunnolían í þessum dropum inniheldur laxerolíu, sem getur aukið þarmahreyfingar hjá barninu og valdið smávægilegum óþægindum og vindgangi en er ekki hættulegt.

Það er vel skiljanlegt að þú sért ekki tilbúin að takast á við annan ungbarnakveisupakka í bili og sért kvíðin því að byrja á vítamíndropunum. Þú getur því alveg leyft þér að fara hægt í sakirnar enda er alltaf hægt að draga aftur í land ef barnið sýnir kröftug viðbrögð við dropunum.

Gangi ykkur vel að vítamínvæðast.

Kolbrún Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 13. júlí 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.