AD dropar og vatnsdrykkja ungbarna

13.07.2006

Sælar og takk fyrir frábæran vef. Hann hefur sko heldur betur nýst mér á meðgöngunni og með brjóstagjöfinni.

Ég er að velta fyrir mér hversu mikilvægir AD droparnir eru fyrir nýbura. Sonur minn er fjögurra mánaða gamall og ég á svolítið erfitt með að muna eftir þessum dropum á hverjum degi. Ég gef honum þá þegar ég man en stundum líða nokkrir dagar á milli. Er ég að skaða hann með þessu? Hvaða áhrif getur það haft á hann að fá ekki dropana? Ég var líka að velta fyrir mér af hverju ég má ekki gefa honum vatn ef ég ætla eingöngu að hafa hann á brjósti til 6 mánaða. Hann er rosalega heitfengur og svitnar mjög mikið og virðist vera mjög þyrstur. Ég prufaði að gefa honum vatnssopa og hann algjörlega elskaði vatnið. Nú má hann ekki sjá glas án þess að teygja sig í það. Ég var búin að ákveða að hafa hann eingöngu á brjósti en þýðir það að ég verði að hætta að gefa honum vatnssopa af og til?

Kveðja, Sigga


Sæl og blessuð Sigga.

Það er reyndar töluvert umdeilt hversu mikilvægir þessir vítamíndropar eru börnum. Heilsugæslan leggur áherslu á að þeir séu gefnir reglulega en síðan er innan um heilbrigðisstarfsfólk sem telur vel nærða móður útvega barni sínu það sem það þarf með mjólkinni og ef hún passar að barnið fái birtu á húðina daglega. Nei, þú ert ekki að skaða barnið með að gleyma dropunum en það er ágætt að taka sig á í að muna eitthvað svona reglulega. Þú kemur til með að þurfa að muna t.d. eftir að gefa lyf reglulega, bursta tennurnar reglulega o.s.frv.

Vatnsgjafir svo ungra barna er í raun ekkert annað en þynning á fæði þeirra. Þau þurfa ótrúlega mikla næringu og hver dropi sem fer inn fyrir þeirra varir er næring. Þannig að vatnsgjafir eru bara til að minnka næringuna. Svipað og við fengjum annað slagið hluta af máltíð bara loft. Brjóstin framleiða ígildi vatns í formi formjólkur. Hennar hlutverk er að slökkva þorsta barnsins. Hún hefur samt mikið næringargildi. Börn sem eru heitfeng og þyrst drekka oft mikla formjólk, þ.e. mjög stuttar aukagjafir.
Svarið er já, hættu að gefa vatnssopa. Gefðu formjólk í staðinn. Þér virðist ganga mjög vel með brjóstagjöfina. Ekki fara að breyta því.

Með bestu brjóstagjafakveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. júlí 2006.