AD-dropar, geymsla og hve lengi á að gefa

23.03.2006

Það stendur á AD-dropa flöskunni að hún dugi í 2 mánuði og mín litla hefur tekið dropana síðan um 1 mánaða. Á hún að hætta á dropunum núna eða á ég að kaupa nýja. Ef svo er hversu lengi á hún að taka þá?


Komdu sæl!

Dagsetningar utan á vöruumbúðum segja til um endingartíma vörunnar eða þann tíma, sem framleiðandinn ábyrgist gildi hennar.
Í þínu tilfelli nefnir þú að vísu ekki aldur dóttur þinnar né hversu lengi þú hefur notað AD dropana, en ég geri ráð fyrir, að þú hafir notað þá lengur en í tvo mánuði. Þá er kominn tími til að endurnýja þá.

Rannsóknir hafa bent á, að það sé heilsusamlegt fyrir okkur að taka ráðlagðan dagskammt af þessum vítamínum (A og D vítamínum) alla ævi. Við fáum þessi vítamín úr fæðunni, sem við neytum t.d. fiski en flestir taka inn þorskalýsi (1 tsk.) daglega til að uppfylla ráðlagðan dagskammt. Ungbörnum eru gefnir AD dropar í stað lýsis frá fjögurra vikna aldri þar til þau eru farin að borða fasta fæðu en þá er skipt yfir í krakka- eða þorskalýsi. Ástæða þess er, að börnin þurfa minna magn af AD-dropunum en lýsinu og er auðveldara að koma þeim ofan í þau.

Gangi ykkur vel!

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. mars 2006.