Spurt og svarað

21. september 2006

Af hverju er slæmt að gefa börnum mat fyrir 6 mánaða aldur?

Ég les mér mikið til hér á þessum frábæra vef ykkar sem á öðrum. Það virðist alltaf koma fram að það sé ekki ráðlegt að gefa börnum annað en brjóstamjólk (eða þurrmjólk) á fyrstu 6 mánuðunum.  Við ungamömmur fáum sem sagt mjög ákveðin svör úr heilbrigðisgeiranum um að þetta sé hið eina rétta.

Það sem kemur þó aldrei fram er: Af hverju má gefa 6 mánaða kríli graut en ekki 5 mánaða?  Ég veit að meltingarfærin eru ekki orðin nógu þroskuð og það allt en ætti barnið þá ekki að sýna merki um að því líði illa af matnum. Eru þeir foreldrar sem gefa börnum sínum að borða á þessum tíma að skemma meltingarfæri barnanna sinna?

Með kveðju frá forvitnu ungamömmunni.


Sæl og blessuð forvitna ungamamma.

Þú fylgist greinilega vel með. Þetta er alveg rétt hjá þér. Skilaboðin frá heilbrigðisstarfsfólki eru skýr um 6 mánaða markið og þau eiga að vera skýr. Það eru ekki bara meltingarfærin sem verið er að tala um heldur er mjög mikilvægt að ónæmiskerfi barna nær ákveðnu þroskamarki þá. Þetta hefur mikil áhrif varðandi ofnæmi. Kviknað getur auðveldlega á ofnæmisviðbrögðum fyrir 6 mánaða aldurinn en barnið sloppið við það ef það er kynnt fyrir ofnæmisvaldinum eftir 6 mánaða aldurinn. Að mínu mati er þetta gífurlega mikilvægt atriði til að koma í veg fyrir ofnæmi fólks í lífinu. Varðandi meltingarfærin þá er tíminn ekki niðurnelgdur. Sum börn eru tilbúin fyrir mat 5 mánaða á meðan önnur þola illa allan mat til 7-8 mánaða. Flestir foreldrar finna þetta auðveldlega á börnum sínum. Samt er eins og sumum foreldrum liggi mjög á að láta börn sín fara að borða og hætta ekki fyrr en það tekst langt fyrir aldur fram. Það er ágæt regla að miða við 6 mánuði, byrja rólega og fresta aðgerðum ef illa gengur.  

Vona að þú hafir fengið þín svör.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.