Spurt og svarað

28. ágúst 2006

Andfýla hjá 18 mánaða gömlu barni

Sæl!

Litlan mín 18 mánaða varð allt í einu svo andfúl í gær og þrátt fyrir að ég tannburstaði hana og tunguna líka. Hvað getur þetta verið? Er eðlilegt að svona lítið barn sé svona andfúlt? Hún var lasin í síðust viku, fékk veirusýkingu og var slæm í maganum þess vegna. Hægðirnar hafa verið síðan, allt frá mjög linar til grænleitar / kolsvartar. Ætti ég að láta kíkja á hana aftur? Ég las einhversstaðar að þetta gæti verið streptokokkasýking en það var athugað m.a. þegar hún varð lasin síðasta mánud fyrir viku og prófið var neikvætt. Getur það hafa breyst eitthvað núna? Hún notar alltaf gúmmísnuð. Ætti ég að prófa silikon snuð í staðinn? Getur það haft eitthvað að segja? Hún er algjör snuddukerling. Ef ég gæti fengið svar frá ykkur fljótlega, þá væri það frábært.

Kveðja, ein áhyggjufull.


 

Komdu sæl!

Mér finnst líklegt, að rekja megi þessa andremmu dóttur þinnar til veikindanna í síðustu viku. Það kemur t.d. andremma frá okkur ef við erum með særindi í hálsi af völdum veiru- eða bakteríusýkingar þar. Þú talar um slæmsku í maganum á henni og finnst mér líklegt, að þetta tengist allt saman. En ef hægðirnar eru kolsvartar ættir þú að láta lækni líta á hana því hægðir verða svartar ef blóð er í þeim. Streptókokkasýkingu fylgir líka andremma og er hægt að fá hana í dag enda þótt hún hafi ekki greinst í gær. Við verðum þó oftast nær hundveik með þeirri sýkingu og fáum háan hita, höfuðverk, beinverki og mikil eymsli í hálsinn svo erfitt reynist að kyngja og veigra börn sér oft við að drekka eða nærast vegna þess. En þú talar ekki um slík einkenni hjá dóttur þinni. Held það skipti ekki máli hvort þú notar gúmmí-eða sílikon snuð fyrir barnið. Aðalatriðið er að þrífa það daglega t.d. sjóða það og endurnýja það nógu oft. Láttu endilega kíkja á stelpuna þína ef þú ert áhyggjufull vegna þessa.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. ágúst 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.