Aum eftir fósturmissi

31.07.2007

Takk fyrir mjög góðan vef.

Ég er nýbúin að missa fóstur en var komin rúmlegar 7 vikur. Óléttan var alls ekki plönuð og kom okkur mjög á óvart. En síðan gerðist það að ég missti og var það rosalega erfið reynsla sem situr rosalega enn fast í mér.  Ég sagði mínum nánustu frá því og var ég rosalega sár yfir hversu léttilega mínu nánustu tóku því, eins og þetta væri rosalega ómerkilegt og hafi ekki verið neitt mál. Ég er enn rosalega aum andlega og hugsa um hvað gerðist daglega. Ég veit að ég var komin rosalega stutt en finnst þetta samt sem áður mikill missir. Hvernig get ég best unnið mig út úr þessu tilfinningalega séð?


Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Ég skil þig mjög vel, það er oft erfitt þegar maður er ekki tilbúin að eignast barn og verða svo barnshafandi og vera svo búin að sættast á það og ganga svo í gegnum missi. þetta er mjög erfitt, fólk almennt skilur þetta ekki og finnst þetta einhver aumingjagangur en missirinn er sá sami hversu langt maður er kominn. Oft koma upp hugsanir gerði ég eitthvað til þess að fóstrið dó? Ekki óalgengt. Litlir englar eru samtök fyrir fólk sem hefur misst fóstur, það gæti verið gott að hafa samband við þau og fá upplýsingar eða leita til sálfræðings bara eitt viðtal gæti gert gæfumuninn.

Með von um að þessi orð verði til þess að aðstoða þig.

Kveðja,

Sigrún E. Valdimarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
31. júlí 2007.