Spurt og svarað

12. janúar 2006

Að byrja að borða

Stelpan mín er að verða 6 mánaða og er yfir 8 kíló. Ég er nýbyrjuð að gefa henni graut fyrir svefninn því ég hef fundið að mjólkin er mikið minni á kvöldin og hún var óróleg áður en hún sofnaði og var farin að vakna mikið oftar. Nú er ég farin að spá í að gefa henni meira að borða þar sem hún virðist ekki hafa mikinn áhuga fyrir að drekka lengur. Hún truflast mjög auðveldlega og þarf ég að hafa mikið fyrir því að halda henni við efnið. Ég hafði hugsað mér að halda brjóstagjöfinni áfram ásamt því að gefa henni að borða en mér finnst mjög erfitt að nálgast upplýsingar um hvernig maður eigi að haga þessu. Er gott t.d. að gefa henni brjóst um morgun og svo smá graut, brjóst í hádeginu og svo t.d. gulrótarmauk og svo koll af kolli eða er betra að sleppa út brjóstagjöfinni og gefa í staðin mat og stoðmjólk? Hvað er ráðlagt að halda sér lengi við eina fæðutegund þegar maður er að byrja að kynna hana fyrir barninu, ef ég t.d. myndi byrja á gulrótarmauki?

Með þökk fyrir ráðleggingarnar.

Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Samkvæmt þeim upplýsingum sem þú gefur, er barnið þitt vel yfir meðallagi í þyngd sem segir okkur að hún hefur verið að nærast vel á brjóstamjólkinni eingöngu fram að þessu. Eftir sex mánaða aldurinn þurfa börn að fara að fá fasta fæðu til viðbótar, m.a. vegna þess að meðfæddar járnbirgðir endast börnum í sex mánuði og eftir það er þörf á annarri næringu. Fyrsta fæðan er oftast grautur og er byrjað með að gefa eina máltíð á dag. Margir byrja með fyrstu máltíðina á kvöldin eins og þú gerir og væri þá næsta skref að bæta við annarri máltíð í hádeginu eða fyrst á morgnana. Þetta fer dálítið eftir svefntíma barnsins. Það er mælt með því að gefa alltaf brjóstið fyrst og bjóða barninu svo graut eða mauk. Ef að þig langar til að halda áfram með barnið á brjósti, myndi ég mæla með að gefa brjóstamjólkina frekar en stoðmjólkina því hún er betri næring og eftir því sem barnið eldist og fer að fá meiri fasta fæðu, minnkar brjóstamjólkin á eðlilegan hátt en heldur áfram að vera verndandi fyrir ofnæmi og ýmsum sýkingum. Hægt er að bjóða barni vatn til drykkjar í stútkönnu frá sex mánaða aldri. Það er vel hægt að sjóða dálítinn skammt af grænmeti í einu og frysta, t.d. í klakaboxi. Tegundir sem er gott að byrja á eru t.d gulrætur, rófur, kartöflur, brokkoli, epli, perur og bananar.

Gangi þér vel!

Ingibjörg Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafiþ
Yfirfarið í júlí 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.