Að láta 5 mánaða börnin sín reyna að ganga

04.07.2007

Hæ, hæ!

Mig langar til að forvitnast aðeins, hvernig er það þegar mæður eru að láta 5 mánaða börnin sín reyna að ganga? Það er að segja að halda í hendurnar á þeim og reyna að láta þú labba áfarm. Fer þetta ekki illa með hendurnar og er ekki hætta á kviðsliti við þessar æfingar. Þegar barnið sýnir ekkert frumkvæði til að fara að ganga er þessi æfing þá æskileg og að lokum á hvaða aldri er mælt með því að gera þessar æfingar.

Með von um svör, Pakki.


Sæl!

Það er ekki æskilegt að byrja svo snemma að reyna að láta börn byrja að ganga.  Hins vegar er hægt að styrkja barn á þessum aldri með því að halda utan um bol þess og leyfa því að standa létt í fæturnar.  Þá notar barnið ekki fullan þunga á fæturnar en barnið fær tækifæri til að styrkja fætur og vöðva í maga og baki.  Á þessum aldri er gott að leyfa börnum að vera mikið á gólfi og þjálfa þau í að velta sér af baki á maga og síðan til baka.  Einnig er gott fyrir þau að fá þjálfun á maga, þannig styrkja þau háls- og bakvöðva.  Þegar börn eru síðan farin að geta staðið ein við t.d. borð er í lagi að byrja að þjálfa þau í að ganga með þeim aðferðum sem þú lýsir í spurningu þinni.  Þá eru þau komin með góðan styrk í fætur, maga og bak.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. júlí 2007.