Spurt og svarað

01. desember 2005

Bakflæði eða eitthvað annað?

Sæl!

Ég er með einn 3 og ½ mánaðar gamlan strák sem er búinn að vera frekar erfiður síðustu vikurnar. Hann byrjaði á því um 2 og ½ árs aldurinn að taka upp á því að vakna á 1-2 tímafresti til að fá sér að drekka og er svona líka á daginn. Hann sefur orðið rosalega illa bæði á daginn sem og næturnar. Ég þarf stanslaust að vera rugga honum í vagninum ef ég hef sett hann út að sofa og ef hann sefur inni þa nær hann bara í mesta lagi klukkutíma í svefni á daginn. Næturnar eru mjög erfiðar þar sem hann er alltaf að vakna og vill stanslaust vera fá sér að drekka. Ég hélt fyrst að þetta væri bara vaxtakippur hjá honum og ræddi þetta við barnalækni þegar ég fór í 3 mánaðar skoðunina því þá var hann búinn að vera svona í 2 vikur. Hún taldi að hann væri sennilega með bakflæði og lét mig fá Gaviscon til að gefa honum. Það virkaði í nokkra daga og er hann kominn aftur í sömu rútínu þar sem hann sefur orðið lítið sem ekki neitt og er frekar pirraður. Þetta er farið að hafa mikil áhrif líka á mig þar sem ég sef orðið lítið sem ekki neitt sjálf því hann er alltaf að vakna á næturnar og daginn. Oft hef ég velt því fyrir mér hvort hann sé einfaldlega ofboðslega svangur því ég heyri alveg gaula stundum í honum garnirnar. Ég hef eingöngu verið með hann á brjósti. Ég reyndi að gefa honum þurrmjólk til að vita hvort hann svæfi lengur en hann vill ekki sjá þurrmjólkina.

Hvað er til ráða?

.......................................................

Sæl og blessuð.

Þetta er erfið staða sem þú ert í því það er mjög lýjandi að vera með barn sem aldrei sefur „langan“ dúr. Ég get ekki séð á bréfinu þínu hvað gæti hugsanlega verið að ef eitthvað er þá að. Það er börnum frá náttúrunnar hendi mjög eiginlegt að vakna oft og drekka í litlum skömmtum. Það samrýmist bara illa norminu í þjóðfélaginu. Það sem vantar líka sárlega í bréfið þitt eru upplýsingar um gjafamynstur. Þ.e.a.s. hve margar gjafir eru á sólarhring, hve langar þær eru og hvernig þær skiptast milli brjósta. Það segir okkur brjóstagjafaráðgjöfum rosalega mikið um hvað er í gangi. Ég hef það svolítið á tilfinningunni að þú gætir kannski reynt að bæta hverja gjöf fyrir sig. Bæta gjafastellinguna, gripið, lengja gjöfina og tryggja að barnið fái sem mest út úr hverri gjöf. Það er erfitt að útskýra það nánar nema vita stöðuna. Ég vona að þetta hjálpi eitthvað. Mundu bara að fara ekki út í það að gefa ábót nema þú viljir henda þér út í brunninn.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.