Spurt og svarað

15. ágúst 2010

Bakverkir og mænurótardeyfing

Hæ!

Í síðustu fæðingu fékk ég mænurótadeyfingu en það gekk mjög illa og tók langan sársaukafullan tíma að setja upp legginn og svo virkaði deyfingin en hætti svo að virka. Virkaði bara hér og þar. Núna er barnið mitt orðið 5 mánaða og er ég oft með mikla verki í bakinu og sérstaklega við það svæði þar sem leggurinn var settur. Getur verið að eitthvað hafi skemmst í bakinu mínu við þetta klúður „sorry“ að ég tek svona til orða en ef ég ætla að eignast barn aftur þá er það þetta sem ég kvíði allra mest fyrir.


Sæl og blessuð!

Það er engin leið að svara þessu hér, þ.e hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis þegar mænurótardeyfingin var lögð og hvort bakverkirnir stafi af þessu eða einhverju öðru. Ef þessir verkir lagast ekki fljótlega þá ættir þú að panta þér tíma hjá heimilislækni til að fá skoðun og mat á þessum verkjum.

Varðandi næstu fæðingu þá er ekkert víst að þú þurfir á deyfingu að halda en það er þitt að velja. Ef þú værir ákveðin í að fá deyfingu þá gæti verið ráð að fá viðtal við svæfingalækni á meðgöngunni til að fara yfir málin. Hér á síðunni eru líka ítarlegar upplýsingar um verkjameðferðir í fæðingu í nýjum bæklingum sem eru hluti af nýrri Bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands. Annar bæklingurinn kallast „Verkjameðferð án lyfja í fæðingu“ og svo er væntanlegur bæklingur sem kallast „Verkjameðferð með lyfjum í fæðingu“.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. ágúst 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.