Spurt og svarað

24. október 2006

Barn sem sýgur þumalinn

Sælar!

Ég á 4 mánaða dóttur sem er mitt fyrsta barn. Hún er eingöngu á brjósti. Strax á fyrstu viku var hún með mikla sogþörf og fékk hún snuð tveggja vikna gömul og tók það vel. Svo var hún farin að vera það mikið með snuðið að mér fannst hún orðin löt að sjúga brjóstið þegar kom að gjöf. Þá reyndi ég að minnka snuðnotkunina hjá henni en þá byrjaði hún að sjúga á sér þumalinn í staðinn. Í fyrstu fannst mér þetta bara sætt en nú er hún farin að sjúga þumalinn mjög mikið. Ég hef reynt að stinga snuð upp í hana í staðinn en hún er orðin það stór núna að hún tekur það út úr sér og stingur þumlinum upp í sig í staðinn. Það sem er farið að pirra mig núna er að hún reynir að stinga þumlinum upp í sig þegar ég er að gefa henni brjóst. Ef hún sleppur takinu á brjóstinu er hún mjög snögg að stinga þumlinum upp í sig og ég þarf að toga hann út úr henni og láta hana fá brjóstið aftur. Stundum vill hún enda brjóstagjöfina á því að sjúga þumalinn og þá hef ég áhyggjur af því að hún sé ekki að fá feitu mjólkina. Eins hef ég áhyggjur af því að þetta hafi slæm áhrif á lögun gómsins hjá henni þegar hún verður eldri. Ég velti því fyrir mér hvort að börn minnka vanalega að sjúga þumalinn þegar þau fara að fá tennur. Ég vil helst ekki hafa hana með vettlinga allan sólarhringinn. Hafið þið einhver ráð handa mér?

Kær kveðja, júnímamma.


Það er ekki hlaupið að því að venja börn af þumalputtasogi get ég sagt þér. Þegar þau eru einu sinni búnn að finna hann þá er einfaldlega ekki hægt að taka hann af þeim. Þú getur reynt að passa upp á að hún sjúgi brjóstið þar til hún sleppir því sjálf. Ef hún stingur þá upp í sig puttanum tekurðu hann varlega út og býður brjóstið í staðinn, aftur og aftur. Það sem þú ert þá í rauninni að gera er að sjá til að hún fullnægi allri sogþörf á brjóstinu og hvergi annars staðar. Ég hef ekki heyrt að þumalputtasog minnki við tanntöku en hins vegar hvort þumalputti eða snuð aflagi tennur meira er mjög umdeilt. Gömul húsráð við þumalputtasog eru flest umdeild og spurning hvort virki nokkuð. Því miður hef ég ekki önnur ráð.

Gangi þér vel. 

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.