Er í lagi fá sér kött á meðgöngu?

02.04.2008

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Þannig er mál með vexti að gamli kisinn minn var að deyja og ég vil gjarnan fá mér annan kött á næstunni. Ég hef alltaf verið innan um ketti og fleiri dýr í sveitinni þó ég búi nú í borginni.  Ég þekki vel til áhættunnar um bogfrymlasótt, hef lesið hin svörin hér á vefnum og einnig það sem stendur á heimasíðu dýralæknisins Helgu Finnsdóttur.  Enda gætt því að fylgja öllum þeim ábendingum sem þar eru varðandi umgengni ófrískra kvenna við ketti. Nú var aftur á móti vinnufélagi minn að tala um að þótt ég hefði átt kött fram að þessu þá væri varhugavert að ég fengi mér nýjan. Mig langar að vita hvað gæti verið því til fyrirstöðu að ég fengi mér nýjan kött (er komin 28 vikur) því ég hef hvergi séð neitt um það þótt víða hafi ég leitað á netinu. Vonandi getið þið upplýst mig frekar.

Kær kveðja, Þórunn.


Sæl Þórunn!

Eins og svo oft áður þá leituðum við til Helgu Finnsdóttur, dýralæknis sem sendi okkur svar um hæl:

„Ég sé því einfaldlega ekkert til fyrirstöðu að hún fái sér kisu á ný; reyndar er meiri hætta á að ungir kettir séu frekar smitberar en þeir sem eldri eru, vel að merkja hafi þeir tækifæri til að veiða! Sé kisa ung og höfð alfarið inni, er sáralítil hætta á að hún sé smitberi. Þó kisa fari út en hafi sandkassa inni, en smithætta sáralítil sé skipt um sand reglulega og oft - og engin hætta fyrir ófríska konu að gera það hafi hún hanska. Auðvitað á alltaf að viðhafa fyllsta hreinlæti - en þar  sem talið er að aðalsmithættan sé við neyslu á hráu eða og lítið steiktu kjöti þarf að gæta þess neyta þess ekki (þ.e. lamba- eða svínakjöts)  og þvo allt grænmeti vel og vandlega (líka það sem er í pokum). Hafa hanska við vorstörfin í garðinum - og til að vera alveg viss, er auðvitað skynsamlegt í næstu læknisskoðun að láta mæla mótefni í blóði. Sé Þórunn neikvæð er hún í áhættuflokki sem þýðir að hún hefur ekki smitast af bogfrymlasótt og hefur engin mótefni. Þá þarf að taka fullt tillit til ofangreindra varúðaráðstafana. Sé hún hins vegar jákvæð er hún ekki í áhættuflokki.“

Vona að þetta komi að gagni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. apríl 2008.