Barnið á sólarströnd

01.05.2006

Góðan daginn!

Ég hef verið að velta einu fyrir mér og ekki fundið svör við  því hérna á vefnum. Í sumar er ég að fara með dóttur mína í sólina. Þegar við förum út verður hún orðin 6 mánaða (í dag er hún eingöngu á brjósti og ég reikna með því að hún verði enn á brjósti þegar við förum út).  Það sem ég hef verið að velta fyrir mér er hvort ég þurfi að gefa henni oftar brjóst eða e.t.v. vatn úr pela/könnu vegna hugsanlegs vökvataps hjá henni í sólinni. Ef ég gef henni vatn að drekka, þarf það þá að vera soðið eða er í lagi að gefa henni vatn beint úr flösku (þ.e. ósoðið).

Með þökk fyrir góðan vef sem að hefur nýst mér mjög vel.


Sælar!

Jú, í sólinni þá þurfa börnin að drekka meira af vökva - svo hún þarf örugglega að fara oftar á brjóst. Það er líka gott að gefa henni vatn úr stútkönnu - ég held að það sé gott að sjóða vatnið vegna þess að hún er svo ung. Það er núna nýr bæklingur sem hægt er að fá í ungbarnaverndinni í heilsugæslunni sem heitir  Barnið á sólarströnd - endilega fáðu eintak - það eru margar góðar leiðbeiningar í honum.

Með kveðju og góða ferð,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. maí 2006.