Spurt og svarað

23. nóvember 2005

Barnið með fæðuofnæmi og mjög háð móður sinni

Mig langaði aðeins að forvitnast hjá þér.

Málið er að ég er með eina unga dömu sem er rétt orðin 9 mánaða gömul. Ég er með hana á brjósti og meira og minna bara á brjósti. Þegar hún var 6 mánaða gömul kom í ljós að daman er með bullandi fæðuofnæmi. Hún er með ofnæmi fyrir hveiti, egg, mjólk og soja. Þannig að það er óhætt að segja að það sé ekki mikið í boði fyrir dömuna. Ég hef reyndar oft reynt að bjóða henni eitthvað að borða það sem ég veit að hún má fá en hún hefur bara engan áhuga að borða. Stundum er hún rétt til í að smakka og búið. Hún er enn að vakna á næturnar til að fá að drekka. Mis oft reyndar en verð að segja að þetta er farið að vera ansi sæmt þar sem að hún vil nú oft bara fá að totta á mér vörtuna eins og snuð. Hún notar ekki snuð og hefur aldrei gert, þrátt fyrir margar tilraunir hjá foreldrum hennar. Hún er virkilega háð mér og það liggur við að pabbi hennar megi ekki einu sinni sinna henni. Þann 2. janúar er ég að fara að vinna aftur og verður það á kvöldin og næturnar. Hún er reyndar verst þá og vill þá oftar fá brjóstið. Svo að ég held svei mér þá að það sé kominn tími til að hætta með dömuna á næturnar ef ég á að „geta“ unnið frá 23-03. Hvernig á ég að snúa mér í þessu öllu saman? Ég er opin fyrir flest öllu. Maðurinn minn er að vinna 3ja hvern sólarhring og í 24 tíma, þannig að það verður voðalega erfitt að fá hans hjálp með þetta en ég vona það besta. Eins veistu hvað þetta getur tekið langan tíma hjá henni að sætta sig við þetta? Barið er reyndar mjög þrjóskt.

Með fyrirfram þökk.

...............................................................................................

Sæl og blessuð.

Þetta er svolítið erfitt hjá þér núna en allt er þetta jú yfirstíganlegt. Það að barnið er með svona mikið ofnæmi þýðir náttúrlega að hún þarf meira á brjóstamjólkinni að halda til að fullnægja næringarþörf sinni. Fæðuofnæmi sem koma fram svona snemma eldast reyndar stundum af börnum þannig að seinna geturðu reynt aftur. Ekki líta á tott sem eitthvað slæmt. Hún hefur aldrei tekið snuð, veit ekki hvað það er, hvernig á að sjúga það eða hvað ætti að koma út úr því. Hvernig getur hún sogið brjóst eins og eitthvað sem hún þekkir ekki. Hún sýgur brjóst af innri þörf fyrir næringu og huggun. Hátturinn á hvernig hún sýgur getur breyst svolítið en það er aldrei óeðlilegt. Á móti kemur að þú ert að fara að vinna og þarft að vera búin að undirbúa hana þannig að hún þurfi ekki á þér að halda þann tíma sem þú ert að vinna. Það er mjög gott að hún er tilbúin að smakka mat. Það er góð byrjun. Reyndu að hafa hann oft til boða fyrir hana. Grænmeti og ávexti í hæfilegum stykkjum að narta í þegar hún er í góðu skapi og forvitin. Ekki láta það fara í taugarnar á þér þótt hún leiki sér bara með matinn til að byrja með. Það er partur af þroskaferlinu. Svo gætirðu reynt að gefa henni graut fyrir nóttina. Það er vel hægt að gera graut sem ekki inniheldur hveiti eða mjólk. Byrjaðu rólega og láttu líða nokkra daga í sama teskeiðafjölda áður en þú eykur hann. Vonandi verður það til þess að hún verði södd yfir nóttina. Ef hún vaknar fær hún bara vatn (ég meina eftir að þú ferð að vinna). Og vertu róleg, hún á eftir að fatta það að þú ert ekki til staðar og það þýðir ekki að bíða eftir brjóstinu. Þú ættir alveg að geta náð þessu fyrir janúarbyrjun.

Með bestu óskum um gott afvenjunarferli,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. nóvember 2005.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.