Barnið svitnar mikið ...

03.10.2004

Hæ, hæ!

Ég á eina 4 mánaða stelpu sem svitnar alveg rosalega mikið. Stundum þegar ég tek hana upp á nóttunni þá er hringlaga far á koddanum og hann alveg rennandi blautur. Hún svitnar líka svolítið mikið þegar ég gef henni brjóst. Hún er yfirleitt rennandi blaut á tánum og í lófunum. Er þetta eðlilegt?

......................................................................

Komdu sæl, og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!
 
Börn svitna mismikið og eru mismunandi mikið heitfeng. Það á við börn jafnt sem fullorðna, að þau svitna til að lækka hitastig líkamans t.d. ef þeim verður of heitt. Sviti hjá börnum getur því verið alveg eðlilegt fyrirbæri og er það oftast. Sviti getur hins vegar einnig tengst sjúkdómum t.d. bæði hjarta- og lungnasjúkdómum og kemur þá fram í óeðlilega miklum svita við lítið tilefni.
Þú þarft því að skoða, hvort dóttir þín sé ekki að svitna á næturna vegna þess að henni er hreinlega of heitt. Sefur hún t.d. í þykkum náttfötum? Eru þau úr gerviefni eða náttúrulegu efni eins og bómull? Flestir svitna meira í gerviefni. Getur verið að sængin sé  of heit eða er of heitt í herberginu ykkar á næturna. Það er í góðu lagi að hafa ferskt loft og sofa með opinn glugga í herbergi þar sem ungbarn er, svo framarlega sem ekki gustar eða blæs á barnið. Prófaðu að breyta einhverju af þessu varðandi barnið þitt, eigi það við hjá ykkur og taktu eftir, hvort hún svitnar ekki minna.

Við brjóstagjöfina getur verið það sama upp á teningnum þ.e. að henni sé hreinlega of heitt. Hún teygar volga mjólkina frá þér, sem yljar henni og liggur upp við heitan líkama þinn, sem einnig gefur henni yl og e.t.v. er hún vafin inn í sæng eða teppi og er auk þess e.t.v. full klædd. Skoðaðu hvort eitthvað af þessu geti átt við hjá ykkur og prófaðu að breyta einhverju þannig, að henni verði ekki of heitt, þegar hún drekkur hjá þér, sem myndi minnka svitamyndun hjá henni.

Ef ekkert af ofangreindu leiðir til minni svitamyndunar hjá dóttur þinni skaltu tala um þetta við hjúkrunarfræðinginn þinn eða lækninn í ungbarnaverndinni og þau munu skoða þetta nánar með þér. Langlíklegast er, að þetta sé alveg eðlilegt.
 
Gangi ykkur vel!
 
Kveðja,

Kolbrún  Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
3. október 2004.