Blá í kringum munninn

10.04.2006

Sæl!

Stelpan mín sem er rúmlega eins árs, er stundum svo blá í kringum munninn, en samt er henni ekki kalt. Hvað getur orsakað þetta? Hún fæddist 5 vikum fyrir tímann, er grönn en borðar rosa vel. Hefurðu einhverja hugmynd um hvað þetta gæti verið. Tók fyrst eftir þessu í morgun og dagmamman hafði orð á þessu í morgun einnig, sagði að hún væri stundum svona.


Komdu sæl, Guðný og takk fyrir að leita til okkar


Það er erfitt að meta þennan bláma í kringum munninn á barninu nema sjá hann með berum augum. Mér finnst ásæða fyrir þig að leita læknis og láta kíkja á stelpuna. Það getur verið eðlilegt að hafa bláma á vörum ef okkur er kalt, en þú segir það ekki vera í þessu tilfelli. Börn geta líka haft bláma á vörum ef súrefnisfyllingin í blóðinu er ekki nægjanleg og getur ástæðan fyrir því tengst starfssemi hjarta og lungna. Það verður að skoða þetta í heild sinni og læknir þarf að útiloka, að um sjúkdóm geti verið að ræða.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
10. apríl 2006.