Spurt og svarað

28. apríl 2008

Bólusetningar

Sæl og takk fyrir góðan vef.

Ég hef verið að velta fyrir mér bólusetningum og mér finnst þetta rosalega stór ákvörðun. Ég vil bólusetja barnið mitt fyrir sjúkdómum en finnst samt sem áður óhugnandi hversu snemma það er gert miðað við magn og innihald sprautanna t.d kvikasilfur, þungamálmar msg og o.fl. Ég er hrædd um að ónæmiskerfið veikist, taugakerfið skaddist eða barnið verði einhverft.

Mínar spurningar eru: Er hægt að bíða með að bólusetja þar til þau eru orðin aðeins eldri? Er hægt að sjá innihald sprautanna einhversstaðar almennilega? Og er hægt að velja sprautur? Þarf barnið að fá allar þessar sprautur innan tveggja ára? Og er hægt að gera eitthvað fyrirbyggjandi fyrir litlu kroppana svo þau finni sem minnst fyrir þessum sprautum? Maður hefur sjálfur verið bólusettur og eins lasin og maður varð af því sem fullorðin trúi ég því að litlu börnunum líði enn verr.

Kannski margar spurningar en ég er að reyna leita mér svara.

 


 

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.
 
Bólusetningar á Íslandi eru ekki lögbundnar. Það hefur ekki verið talin þörf á að gera bólusetningar að skyldu vegna almennrar þátttöku landsmanna í bólusetningu. Bólusetningar hafa verið almennar hér á landi í marga áratugi, einkum í bólusetningu barna. Þetta er mjög mikilvægt þar sem farsóttum verður ekki haldið í skefjum nema þorri fólks sé bólusettur. Brýnt er að bólusetningar barna nái til nær allra barna í hverjum fæðingarárgangi. Með því móti er unnt að mynda svonefnt hjarðónæmi gegn skæðum smitsjúkdómum, sem þýðir að ónæmi gegn þeim verður nægilega algengt í landinu til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómanna, jafnvel þótt vart verði við einstök tilfelli.  Foreldrar geta því ákveðið hvenær og hvort börn þeirra verða bólusett. Einnig geta foreldrar ákveðið hvort börn þeirra fái allar þær bólusetningar sem í boði eru eða einstaka bólusetningu.  Það má bólusetja á hvaða aldri sem er, jafnvel þegar einstaklingar eru orðnir fullorðnir. Þú getur séð innihaldslýsingu á sprautupökkunum á heilsugæslustöðvum.  Varðandi pælingu þína á kvikasilfri, þungmálmum o.fl. þáttum þá eru þessi efni víða í umhverfi okkar. T.d. er kvikasilfur í þurrmjólk, brjóstamjólk og mörgum fisktegundum og því erfitt að koma alveg í veg fyrir inntöku þessara efna. Einungis 10% barna fá einhver einkenni eftir bólusetningar, sem vara í ½ -1 sólahring.  Einkenni geta verið slappleiki þar sem barnið sefur meira, roði og þykkildi á stungustað og beinverkir og hiti (ekki meira en 38 °C ) og getur barnið þá orðið órólegt.  Hægt er að gefa Parsupp stíl (til í mismunandi styrkleikum eftir þyngd  barns) sem linar verki og lækkar hita. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að eftir því sem einstaklingar eru eldri þegar þeir fá bólusetningu geta þeir sýnt kröftugri viðbrögð við bóluefninu. Fyrir mörgum áratugum kom fram sú kenning að bóluefni, sem börnum er gefið við 18 mánaða aldur (MMR), gæti orsakað einhverfu síðar meir. Margar rannsóknir hafa verið gerðar síðan og hafa þær allar komist að þeirri niðurstöðu að svo er ekki. Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að heili einhverfra barna er öðruvísi útlítandi við fæðingu en barna sem ekki eru einhverf.

Vona að þetta svari spurningum þínum og þetta svörin geri þér auðveldara fyrir að taka ákvörðun varðandi bólusetningar á barninu þínu.


Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. apríl 2008.

Þann 29. apríl barst svo þessi ábending frá notanda síðunnar:

Ég bý erlendis og er svo heppin að barnalæknirinn okkar er líka lærður hómeópati.  Hún hefur fyrir hverja bólusetningu skrifað upp á remedíur til að minnka neikvæð áhrif bólusetningarinnar á barnið og styrkja ónæmiskerfið.

Vona að þetta hjálpi.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.