Spurt og svarað

02. nóvember 2009

Bólusetningar barna

Ég er ung móðir í Reykjavík og er núna búin að vera að hafa áhyggjur af svínaflensunni eins og örugglega margir aðrir foreldrar. Litli karlinn minn er 7 mánaða núna, hann er alveg hraustur en ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að láta bólusetja hann?  Ég er sjálf búin að fá og ætla að senda manninn minn þegar hann má fara svo hann fari nú ekki að koma með þetta heim. Málið er að það er búið að hræða mig svo vegna bólusetninga ungbarna yfir höfuð og nú hef ég áhyggjur vegna þeirra bólusetninga sem hann er þegar búinn að fá.  Ég veit að maður á nú ekki að vera að taka mark á þessum hræðsluóhróðri á t.d. Barnaland en maður fer að hugsa.  Auðvitað vil ég veita barninu mínu þá bestu vörn sem hægt er að fá en er það satt að það sé kvikasilfur í bólusetningum?  Að börn geti fengið krampa eða orðið einhverf?  Ég er bara algerlega orðin rugluð á þessu öllu saman.  Svo er ég búin að taka eftir að hann er að fá stundum smá kippi. Svona eins og hann sé að fá hroll, þetta er ekkert mikið áberandi og hann verður ekkert fjarrænn eða neitt svoleiðis.  Ég talaði um þetta við hjúkrunarfræðinginn og lækninn í 6 mánaða skoðuninni og þau vildu ekkert gera neitt úr þessu.  Gæti verið að þetta séu ungbarnakippir?  Eru þeir hættulegir?  Og í framhaldi af bólusettnigarumræðunni, gæti þetta verið vegna þeirra? 


Komdu sæl

Bólusetningar eru framkvæmdar til að koma í veg fyrir hættulega smitsjúkdóma hjá börnum sem hér á árum áður leiddu börn jafnvel til dauða.  

Það er satt að mikil umræða hefur verið vegna einhverfu sem hefur þá verið tengd 18 mánaða sprautunni en ekki hefur verið hægt að staðfesta tengsl þarna á milli með rannsóknum. Á sama tíma og þessi umræða hefur verið hafa greiningaraðferðir á einhverfu batnað mjög svo sennilega er það ástæðan fyrir aukningu á greiningum á einhverfu miklu frekar en sprautan en sprautað hefur verið í töluvert mörg ár með þessu bóluefni.

Kvikasilfur í bólusetningum er í afar litlu magni og af "góðri greð sem skaðar ekki börnin.

Helstu aukaverkanir við bólusetningar almennt eru hiti og roði og eymsli á stungustað.

Ég mæli með að þú lesir bæklinginn "Upplýsingar um bólusetningar barna fyrir foreldra og aðstandendur" sem þú hefur örugglega fengið í ungbarnaverndinni.  Þar er rætt ýtarlega um bólusetningar barna.

Varðandi svínaflensubólusetningu er ráðlagt að allir láti bólusetja sig og nýjustu fréttir frá því fyrir helgi tala um að nú séu börn að veikjast.  Skv. þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið er bóluefnið ekki hættulegt börnum frekar en fullorðnum.  Það að veikjast af H1N1 flensunni getur hinsvegar verið hættulegt.

Hægt er að fylgjast með nýjustu fréttum af inflúensunni á www.influensa.is

Ef þú hefur verulegar áhyggjur af þessum kippum sem drengurinn er að fá þarftu að segja lækninum þínum frá því og ræða það ýtarlega við hann.  Það er hinsvegar mjög langsótt að þetta sé tengt bólusetningunum sem hann hefur fengið.

Vona að þetta svari spurningunum þínum.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
2. nóvember 2009

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.