Spurt og svarað

04. ágúst 2005

Bólusetningar fyrir utanlandsferð

Góðan daginn,
Ég er að fara með barnið mitt til Grikklands, þá verður hann 4 mánaða gamall, hann verður þá búinn að fara í eina sprautu, þarf ég að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir og fá sér sprautur eða eitthvað slíkt?
Svo vildi ég spyrja um annað, eruð þið með ráðleggingar um hvernig er best að hafa þetta fyrir barnið í hita og sól, auðvitað undir sólhlíf og með sterka sólvörn, en er í lagi að einhver sól skíni á hann eða verð ég að hafa hann í síðerma og hylja hann alveg? Og á ég að gefa honum soðið vatn líka í hitanum eða bara brjóstið þeim mun oftar? (hann er eingöngu á brjósti)
Takk fyrir
 
.........................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Ég hafði samband við lækni á Heilsuverndarstöðinni (Helga, Sérfræðing í bólusetningum fyrir ferðalög) sem kvaðst mæla með því að barnið fengi sína venjulegu sprautu við þriggja mánaða aldur en svo aftur við fjögurra mánaða aldur áður en þið farið út (í staðinn fyrir fimm mánaða).  Aðrar bólusetningar þarf ekki.
Auðvitað þarftu að passa barnið afar vel í sólinni og hitanum sem er úti.  Ef þú ert með sólarblokk á honum (vörn 30) þá má kannski skína smá sól á hann í pínulitla stund á dag en ekki vera með hann í sólinni á heitasta tímanum og þegar sólin er sterkust (það á líka við um alla).  Það þarf líka að passa að bera vel á hann allsstaðar eins og eyrun, tærnar og aðra staði sem vilja gleymast.  Það er mjög gott að hafa hann í síðerma þunnum bolum og buxum úr ljósu efni. Best er að halda sig við brjóstagjöfina en það er viðbúið að hann verði þyrstur í hitanum, þú munt hinsvegar bara framleiða meira til að fullnægja eftirspurninni.
 
Gangi ykkur vel og góða skemmtun.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
04.08.2005.
 

 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.