Bólusetningar ungbarna

09.12.2006

Hæ, hæ!

Hefur þú einhvern tímann fengið fyrirspurn um áhættu í sambandi við að bólusetja ungbörn?  Ég er að heyra á fólki að það geti fylgt því áhætta.
Að sum börn þoli illa, sérstaklega undir 2 ára aldri, að fá þessar bakteríur í ónæmiskerfið sitt. Þá er talað um skaða á taugakerfi, misþroska, einhverfu sem afleiðingar o.fl. 

Veistu hvar upplýsingar um þetta er að finna?Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Þeir tveir þættir, sem eru mikilvægastir og skipta sköpum fyrir heilsufar barna í heiminum í dag og til að koma í veg fyrir ungbarnadauða eru, brjóstagjöf og bólusetningar. Það kom upp sú umræða í þjóðfélaginu fyrir nokkrum árum, að tengsl væru á milli einhverfu og MMR bólusetningar hjá 18 mánaða gömlum börnum, samkvæmt einhverri rannsókn, sem var gerð úti í heimi. Landlæknir og sóttvarnarlæknir, Haraldur Briem skoðuðu málið og fjölluðu um það í fjölmiðlum. Niðurstaðan varð sú, að við þyrftum ekki að óttast þessi tengsl og engin ástæða væri til að hætta að bólusetja gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (MMR). Þú ættir að geta fengið nánari upplýsingar um þetta hjá Landlæknisembættinu og jafnframt á þinni heilsugæslustöð.

Með von um að þú látir bólusetja barnið þitt.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. desember 2006.