Spurt og svarað

25. júlí 2006

Börn í sund

Hvað þurfa börnin að vera orðin gömul til að geta farið í almenningssundlaugar? Getur klórinn haft áhrif á þau?
 
Það er ekki til nein formúla fyrir því hvenær er óhætt að fara með litlu krílin í sund og þá er ég að tala um útilaugar. Börn byrja oft í ungbarnasundi um þriggja mánaða aldur en það er haldið í innilaugum. Það getur verið mjög einstaklingsbundið hvenær börn geta farið í útilaug en skynsemin segir okkur að byrja á því að fara þegar gott er veður, ekki frost, rigning eða rok. Gott getur verið að hafa sundhettu á börnunum til að minnka líkurnar á kælingu, þar sem hitatap verður mest gegnum höfuðið. Einnig er gott að ausa volgu vatni yfir axlirnar af og til og vefja börnin í handklæði á leið út og inn úr lauginni. Einnig er gott að byrja rólega og vera stutta stund í fyrstu og smá lengja svo tímann sem börnin eru ofaní, þannig sér maður líka hvort þau þoli ekki klórinn, en flest börn gera það. Þegar komið er í búningsklefann ætti að þurrka börnunum strax og klæða þau á undan mömmu til að þeim verði ekki kalt. Það er þó nauðsynlegt fyrir konur með börn á brjósti að þurrka sér eða að minnsta kosti að vefja handklæði utan um sig strax svo þeim verði ekki heldur kalt á meðan þær klæða börnin. 
Bestu kveðjur
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
25.07.2006.
 
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.