Börn í sund

25.07.2006
Hvað þurfa börnin að vera orðin gömul til að geta farið í almenningssundlaugar? Getur klórinn haft áhrif á þau?
 
Það er ekki til nein formúla fyrir því hvenær er óhætt að fara með litlu krílin í sund og þá er ég að tala um útilaugar. Börn byrja oft í ungbarnasundi um þriggja mánaða aldur en það er haldið í innilaugum. Það getur verið mjög einstaklingsbundið hvenær börn geta farið í útilaug en skynsemin segir okkur að byrja á því að fara þegar gott er veður, ekki frost, rigning eða rok. Gott getur verið að hafa sundhettu á börnunum til að minnka líkurnar á kælingu, þar sem hitatap verður mest gegnum höfuðið. Einnig er gott að ausa volgu vatni yfir axlirnar af og til og vefja börnin í handklæði á leið út og inn úr lauginni. Einnig er gott að byrja rólega og vera stutta stund í fyrstu og smá lengja svo tímann sem börnin eru ofaní, þannig sér maður líka hvort þau þoli ekki klórinn, en flest börn gera það. Þegar komið er í búningsklefann ætti að þurrka börnunum strax og klæða þau á undan mömmu til að þeim verði ekki kalt. Það er þó nauðsynlegt fyrir konur með börn á brjósti að þurrka sér eða að minnsta kosti að vefja handklæði utan um sig strax svo þeim verði ekki heldur kalt á meðan þær klæða börnin. 
Bestu kveðjur
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
25.07.2006.