Er lakkrís hættulegur á meðgöngu?

30.05.2011

Halló.

Er lakkrís svona hættulegur á meðgöngu?

Sjá frétt á BBC og umfjöllum á vefnum Parentdish.


Hæ, hæ!

Lakkrísát á meðgöngu virðist vera vinsælt rannsóknarefni því þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn velta þessu fyrir sér. Fyrir nokkrum árum birtist rannsókn sem gerð var í Finnlandi sem benti til þess að konur sem borðuðu mikið af lakkrís væru í meiri hættu á að fæða fyrir tímann. Upphaflega fór þessi rannsókn af stað til að kanna hvort lakkrísneysla hefði áhrif á fæðingarþyngd en það reyndist ekki hafa nein áhrif á hana. Í rannsókninni kom hins vegar í ljós að konur sem borðuðu meira en 250 grömm af lakkrís á viku voru helmingi líklegri til að fæða fyrir tímann (< 37 vikur) en þær sem borðuðu minna en sem svarar 125 grömmum á viku. Þessar niðurstöður gefa vissulega vísbendingu en það er þó ekki hægt að fullyrða neitt út frá þessum niðurstöðum þar sem upplýsingum um lakkrísneyslu var safnað eftir á og það þykir ekki vera nægjanlega áreiðanleg rannsóknaraðferð. Hins vegar er þetta ekki út í hött því fræðilega séð getur lakkrís aukið myndun prostaglandína og þannig flýtt fyrir fæðingu.

Þessi umfjöllun sem þú vísar í á Parentdish fjallar einnig um rannsókn frá Finnlandi. Þar kemur fram að samkvæmt blóðprufum sem teknar voru hjá 8 ára börnum mældist mun hærra af hormóninu kortisól hjá börnum þeirra mæðra sem neyttu mikið af lakkrís á meðgöngu en þetta hormón hjálpar okkur að takast á við streitu en of mikið af því hefur verið tengt við sykursýki, háan blóðþrýsting og offitu.   

Í fréttinni á BBC er fjallað um finnska rannsókn sem gerð var í framhaldi af rannsókninni um lakkísát og fæðingarþyngd og fyrirburafæðingar. Samkvæmt niðurstöðum þeirra var meira um hegðunarvandamál og námserfiðleika barna þeirra mæðra sem hefðu neytt meira en 500 mg af glycyrrhizin á viku en það samsvarar um 100 grömmum af hreinum svörtum lakkrís.  

Það er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá þessum niðurstöðum en það er þó ekki hægt að fullyrða neitt þar sem upplýsingum um lakkrísneyslu var safnað eftir á og það þykir ekki vera nægjanlega áreiðanleg rannsóknaraðferð. Enn sem komið er hafa a.m.k. ekki verið gefnar út ráðleggingar þess efnis að barnshafandi konur ættu ekki að borða lakkrís. Við vitum þó að mikið lakkrísát getur valdið hækkun á blóðþrýstingi sem er vissulega ekki æskilegt á meðgöngu þannig að það er alla vega góð ástæða til að borða hann bara í hófi.

Lakkrískveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. maí 2011.