Spurt og svarað

02. mars 2009

Brjóstamjólk eða Stoðmjólk?

Sælar ljósmæður.

Ég fór að velta fyrir mér þegar ég sá svarið við  fyrirspurn sem heitir "D-vítamín og járn fyrir börn" hve mikið ósamræmi er stundum í svörum hjá ykkur. Flestar ljósmæður tala um brjóstagjöf sem lengst og eingöngu til 6 mánaða eins og WHO mælist til en svo koma upp svona svör frá ykkur sem maður skilur ekki alveg. "Hér er mælt með að börn fái Stoðmjólk eftir að
brjóstagjöf lýkur (6 mánaða) og til tveggja ára en hún er járnbætt".  Er það í alvöru mælikvarði fyrir íslensk börn að þau eigi að drekka stoðmjólk eftir 6 mánaða út af járninu. Ég á fjögur og hef aldrei notað stoðmjólk. Þau hafa reyndar öll verið á brjósti frekar lengi og ég kýs að gefa ekki mjólkurvörur fyrsta árið eins og reyndar er líka talað um í bæklingnum um næringu ungbarna. Þannig að nú er ég orðin nett rugluð á þessum misvísandi skilaboðum. Þannig að ég tel að fyrir mæður með sitt fyrsta barn þá sé þetta nú svolítið erfitt að átta sig á. Á ég að gefa mínum járn í einhverju öðru formi þar sem ég kýs að nota ekki stoðmjólk? 

Annars takk fyrir góðan vef.

Kveðja Kristín


Komdu sæl Kristín og takk fyrir ábendinguna.

Ég hef greinilega ekki skrifað nógu skýrt að ég er EKKI að mæla með að konur hætti með börnin á brjósti til að fara að gefa Stoðmjólk við 6 mánaða aldur.  Ef börnin eru á brjósti fá þau járn úr brjóstamjólkinni.  Þegar börn eru hætt á brjósti er hinsvegar mælt með Stoðmjólkinni þar sem hún líkir eftir brjóstamjólkinni eins og þurrmjólk gerir og er m.a. járnbætt. 

Fyrir nokkrum árum var gerð könnun á járnbúskap barna á Íslandi við tveggja ára aldur og kom í ljós að alltof mörg þeirra voru  með járnskort sem getur haft áhrif á þroska barna og heilsu.  Því var farið út í að hanna Stoðmjólkina og eftir að farið var að mæla með henni hefur járnbúskapur barna farið mjög batnandi, samkvæmt rannsókn sem gerð var í kjölfarið.

Bæklingurinn "Næring ungbarna" mælir ekki með að börnum sé gefin kúamjólk (Nýmjólk) fyrsta árið en mælir með Stoðmjólk þar sem hún líkir eftir móðurmjólkinni og er járnbætt.

Ég vona að þetta leiðrétti þann misskilning sem fyrra svar mitt olli.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
2. mars 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.