Spurt og svarað

03. júlí 2008

D-vítamín sem fæðubót ungbarna

Sælar og takk kærlega fyrir góða síðu!

Nú hef ég ekki fengið ADC eða AD vítamín í svolítinn tíma og sá hérna inni að ég mætti gefa barninu barnalýsi frá 4 vikna aldri. Eftir að ég keypti lýsið ætlaði ég að athuga hvort skammtastærðin hefði staðið inni hjá ykkur (stendur bara yngri en 5 ára á pakkanum) en þá fann ég annað svar sem sagði að mætti gefa barninu krakkalýsi frá 6 mánaða aldri? Mín er ný orðin 5 mánaða og ég þori ekki að gefa henni lýsið fyrr en ég heyri frá ykkur aftur. 

Hins vegar hef ég verið í vandæðum með missaga ljósmæður. Til dæmis fór ég í brjóstaráðgjöf og fékk mjög kærkomna hjálp þar sem stúlkan mín var stanslaust á brjósti. Síðan hef ég verið í vandræðum með að fá hana til að sofa (svaf jafnvel ekkert frá 9 á morgnanna fram á kvöld, kannski klukkutíma en í mestalagi 2 tíma). Ljósan mín benti mér á að lesa bókina draumaland. Þar stangast ýmislegt á við það sem mér var sagt í brjóstaráðgjöfinni.

Fyrir utan þetta langar mig að spyrja ykkur. Þið eruð með greinar um ýmislegt sem hafa komið sér vel, en eftir að barnið er fætt er þetta að aðallega í fyrirspurnum. Hvernig væri að taka saman, t.d úr fyrirspurnunum og búa til fræðslunet um það líka.

Með fyrirfram þökk fyrir góða síðu, Áshildur.


Sælar.

Takk fyrir fyrirspurnirnar og góðar ábendingar.

Og gaman að fá þessa spurningu frá þér í dag um barnalýsi. Í gær kom á markað ný vara, Livol D-dropar fyrir börn 0 til 1 árs. Livol eru D vítamíndropar sem koma frá Danmörku og þeir koma í staðinn fyrir AD vítamíndropana, samkvæmt ráleggingum Lýðheilsustöðvar sem ráðleggur að gefa ungbörnum eingöngu D vítamín sem fæðubót. Ekki er lengur ráðlagt að gefa börnum A vítamín sem fæðubót og er stuðst við íslenska rannsókn þar sem fram kemur að íslensk ungbörn fá nóg A vítamín með móðurmjólkinni og annarri næringu. Samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar er ráðlagður dagskammtur af D vítamíni 10 ug sem er 5 dropar. Livol D er í 10 ml glösum með dropatappa. Nýr bæklingur um D vítamín er í vinnslu og mun hann verða sendur öllum Heilsugæslustöðvum þegar hann er tilbúinn.

Ég fékk þessar upplýsingar í dag – svo að ráðleggingar okkar ljósmæðra/hjúkrunarfræðinga voru aðrar í gær og undanfarnar vikur, vegna þess að AD droparnir fengust ekki. Þá vorum við að ráðleggja ACD-vítamíndropa, Infant care vítamíndropa, þorskalýsi eða krakkalýsi og völdu foreldrar það sem þeim líkaði best. Landlæknir hafði ráðlagt AD – vítamíndropa frá 4 vikna aldri og krakkalýsi frá 6 mánaða aldri í leiðbeiningum sem við höfum einnig verið að styðjast við.

Ég hef ekki lesið bókina Draumaland svo ég veit ekki hvað er sagt þar sem tengist brjóstagjöf og svefni ungbarna.

Gangi þér vel með litlu stúlkuna þína á brjósti.

Bestu kveðjur,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. júlí 2008.

 

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.