Spurt og svarað

24. apríl 2006

Draumar ungbarna

Takk fyrir afskaplega fróðlega síðu. Ég er að velta því fyrir mér hvað ungabörn dreymir og hvernig þau dreymir, úr því að þau kunna ekki ennþá tungumál? Svo langar mig líka að vita hvort að þau dreymir eitthvað í móðurkviði? Er kannski ómögulegt að  öðlast einhverja vitneskju um þetta? Á ellefu vikna son sem virðist oft vera að dreyma eitthvað á svipbrigðunum að dæma!

Bestu kveðjur, Rósa.


Komdu sæl, Rósa

Drauma ungbarna er erfitt að rannsaka einmitt vegna þess, að þau geta ekki talað. Það hafa verið gerðar margar rannsóknir á svefni fullorðinna og komið hefur í ljós, að fullorðið fólk gengur í gegnum nokkur svefnstig, þegar það sefur og er eitt stigið nefnt REM svefn eða „rapid eye movement“ svefn. Þá sjást miklar augnhreyfingar undir augnlokum hjá viðkomandi. Þegar fólk hefur verið vakið á þessu svefnstigi tjá flestir sig um, að þá hafi einmitt verið að dreyma og því hefur verið dregin sú ályktun, að þetta svefnstig sé draumsvefninn. Við sjáum þetta fyrirbæri líka hjá ungbörnum þ.e. hraðar augnhreyfingar öðru hvoru, þegar þau sofa. Því hefur sú ályktun verið dregin, að ungbörn gangi í gegnum draumsvefnstig líka en hvað þau dreymir er ég ófær um að segja þér. Það hefur einnig komið í ljós, að þetta gerist líka hjá fóstrum í móðurkviði allt frá þriðja mánuði meðgöngunnar. Vona, að drengurinn haldi áfram að sofa vel og það verður spennandi fyrir þig að fylgjast með draumunum hans, þegar hann byrjar að tala.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. apríl 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.