Dúnsængur

19.12.2004

Ég á von á mínu fyrsta kríli í janúar og er á fullu að versla það nauðsynlegasta. Ég hef heyrt að dúnsængur geti valdi ofnæmi hjá ungbörnum. Er það satt og hversu snemma er óhætt að láta krílin sofa við dún og fiðursængur? Eru einhverjar gerviefnasængur betri en aðrar?

..........................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.
 
Jú, það er rétt, að börn geta fengið ofnæmi fyrir dún eins og dýrahárum og ryki. Ef það er þekkt ofnæmi í nánustu fjölskyldu væri rétt að nota sæng úr gerviefni sem hægt er að þvo reglulega í þvottavél. Get ekki mælt með neinni sérstakri tegund sem er á markaðnum heldur treysti þér til að finna, hvað hentar ykkur best. Ég veit ekki hvað skal segja með aldursmörk varðandi dúnsængur. Komi ofnæmi í ljós hjá barninu sefur það væntanlega aldrei með dúnsæng en margir láta á það reyna, hvort ofnæmistilhneiging kemur í ljós hjá barninu (oftast sem þrálátt kvef eða astmi), og er það þá greint hjá lækni um hvers konar ofnæmi er um að ræða og ráðstafanir gerðar út frá því.

Vona, að þetta svari fyrirspurninni.

Með kveðju,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
18. desember 2004.