Ef báðir foreldrar eru RhD- eru þá einhverjar líkur á að barnið verði RhD+?

12.10.2007

Sæl og takk fyrir góðan vef.

Ég er með eina spurningu varðandi blóðflokka. Ef báðir foreldrar eru í mínus rhesus eru þá einhverjar líkur á að barnið verði í plús?  Getur það mögulega erft plúsinn frá ömmum eða öfum, eða erfist þetta alfarið frá foreldrum?

Kveðja, Ein í mínus.


Sæl og blessuð!

Rhesus D þáttur erfist bara beint frá foreldrum, einn frá hvoru foreldri.

Einstaklingur sem er Rhesus D jákvæður (RhD+) hefur a.m.k. einn RhD+ þátt en getur haft tvo.  Samsetningin hjá Rheusu D jákvæðum getur verið RhD+/RhD+ eða RhD+/RhD- (vantar D). Sá sem er Rhesus D neikvæður (RhD-) hefur samsetninguna RhD-/RhD- þ.e. vöntun á Rhesus D þætti. Ef móðir er RhD- en faðirinn RhD+ getur barnið orðið annað hvort RhD+ eða RhD- því faðirinn gæti hafa haft einn RhD- þátt sem barnið getur erft.

Þín spurning er öllu auðveldari og best að koma sér að henni. Ef báðir foreldrar eru RhD- þá er enginn RhD+ þáttur til staðar og því getur barnið ekki orðið RhD+.

Vona að þetta sé ekki ruglingslegt.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. október 2007.