Spurt og svarað

25. júní 2006

Einkenni bakflæðis

Hæ!

Getið þið sagt mér hver eru helstu einkenni bakflæðis hjá ungum börnum. Ég er nefnilega að velta því fyrir mér hvort minn þriggja og hálfs mánaða sé með bakflæði. Getur bakflæði haft áhrif á svefn, þar að segja að hann sofi ekki eins vel og áður og sé mikið pirraður á brjóstinu. Hann er eiginlega alltaf pirraður á brjóstinu drekkur bara í stutta stund er alltaf að baða út handlegg og fótlegg. Hann stundum hættir en vill samt halda áfram að drekka hann sýnir það þannig að hann snýr alltaf hausnum niður og að mér eins og hann sé að reyna að ná í geirvörtuna og þegar hann nær henni þá sleppir hann eftir smá stund. Stundum þegar hann er að þessu þá verður hann mikið pirraður og er við það að gráta. Þetta er búið að standa yfir í að minnsta kosti mánuð. Ég hef verið að velta því fyrir mér að láta hann hætta á brjóstinu.Sæl og blessuð.

Nei, endilega ekki hætta með hann á brjóstinu. Fáðu góða hjálp til að laga ástandið. Ég er enginn sérfræðingur í bakflæði og myndi ráðleggja þér að tala um það við barnalækni. Hins vegar veit ég að aðaleinkenni bakflæðis eru uppköst og þú nefnir þau ekki. Þú talar hins vegar um einkenni sem geta bent til of hraðs losunarviðbragðs í brjóstunum. Það er tiltölulega auðvelt að laga ef þú færð til þess hjálp. Lýsingin hjá þér bendir líka til þess að þú gætir grætt á að laga brjóstagjafastellingarnar. Kíktu hérna á síðuna og finndu þau ráð sem gefin hafa verið við of hröðu losunarviðbragði eða of hröðu flæði og vittu hvort þú getur notfært þér þau. Annars þarftu aðstoð brjóstagjafaráðgjafa eða annars sem er fær í brjóstavandamálum og getur hjálpað.

Bestu kveðjur og ósk um bætt ástand,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. júní 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.