Einkenni um utanlegsfóstur

09.12.2008

Hæ, hæ!

Ég er búin að halda núna í langan tíma að ég sé ólétt. Er með mörg einkenni, ógleði, viðkvæm í brjóstum/geirvörtum, fæ svima, þarf oft að pissa og svo framvegis. Ég tók fyrstu þungunarprófin í enda október, bæði neikvæð og tók svo aftur próf einhvern tímann í fyrstu viku nóvember og þau voru líka neikvæð. Mér og kærastanum mínum fannst þetta svo skrítið þannig að ég hringi í lækninn minn, segi honum frá þessu og hann biður mig um að koma daginn eftir með þvagprufu og sendir mig í blóðprufu. Nokkrum dögum seinna hringir hann í mig og segir að allt sé eðlilegt, engin þungun eða neitt svoleiðis. Núna síðustu vikuna er ég farin að fá alveg hrikalega verki á móðurlífssvæðinu og komst ekki í vinnu í næstum viku vegna ógleði, svimakasta og verkja í móðurlífinu. Ég meira að segja grét af verkjum eina nóttina. Svo fæ ég hrikalega vondan verk þegar ég stunda kynlíf með kærastanum, eins og eitthvað sé fyrir og að meiða mig. Hefur þú einhvern grun um hvað þetta gæti verið? Gæti þetta verið utanlegsfóstur hjá mér? Tók þungunarpróf í gær sem kom neikvætt út. Mér finnst þetta bara svo hrikalega skrítið allt saman og vona innilega að þú getir gefið mér einhver svör.


Sæl og blessuð!

Ef þú værir með utanlegsfóstur þá ætti þungunarprófið að vera jákvætt. Hvenær varstu síðast á blæðingum? Mér finnst þetta hljóma eins og eitthvað sem þarf að skoða betur og því ráðlegg ég þér að leita aftur til læknis.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. desember 2008.