Spurt og svarað

14. mars 2005

Ekkert hunang á snuðið!

Ég er með 3. mánaða stelpu og hef stundum á kvöldin sett náttúrulegt hunang sem ég fékk í heilsubúð á snuðið hennar ef hún á erfitt með að sofna og róast hún yfirleitt við að fá bara pínulítið og sofnar þá. Ég veit um margar sem hafa gert þetta en ég var að spá hvort hunangið væri slæmt fyrir krílin eða er það í lagi í mjög litlum mæli?

..........................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Það er ekki mælt með því að nota hunang á snuð hjá ungbörnum.

  • Í fyrsta lagi getur það verið hættulegt fyrir barnið, því það er mögulegt að fá hættulega sýkingu úr hunangi, (svokallaða clostridium botulinum baktería). Sporar þessara baktería hafa fundist úti í náttúrunni, í jarðvegi og í hunangi. Berist sporarnir í meltingarveg barnsins þróast þeir í bakteríur sem geta gefið frá sér eiturefni svokallað toxín, sem hefur áhrif á flutning taugaboða til vöðva um taugakerfið, þannig að vöðvar geta orðið mjög máttlausir og valdið t.d. öndunarbilun.
  • Í öðru lagi er ekki skynsamlegt að venja barnið á svo sterkt sætuefni á þessu aldursskeiði því það getur haft áhrif á matarvenjur barnsins, þegar þú ferð að kynna fyrir því fasta fæðu, síðar meir. Þá hefur barnið vanist sæta bragðinu og vill síður venjulegan, hollan mat.
  • Í þriðja lagi er sykurinn ekki hollur fyrir tennur barnsins og getur stuðlað að tannskemmdum, þegar tennurnar byrja að koma.

Sem sagt: ekkert hunang á snuðið!

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.