Spurt og svarað

23. september 2004

Ekki 100% viss

Þannig er mál með vexti að ég er ófrísk og er 99% hver faðirinn er ekki, samt óörugg. Ég byrjaði á síðustu blæðingum 12.ágúst en tíðarhringurinn er 33-32 dagar. Málið er að ég og kærasti minn hættum saman í einhvern tíma en 21. ágúst var ég með öðrum strák og svo ca 25. ágúst byrjuðum við aftur saman. Þann 30. þá ákvað ég að kaupa mér óléttupróf en mér leið e-ð undarlega og keypti heil 3 stk af því og voru þau öll skýr og neikvæð en ég keypti yes or no próf sem á að sýna niðurstöður ca 8 dögum eftir getnað. Svo spurningin er hvort ég geti treyst á þessi próf sem ég tók þann 30 ágúst? (er ekki á pillunni).

..........................

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina!

Mér finnst harla ólíklegt að þú getir treyst prófunum sem þú tókst 30. ágúst ef þú hefur orðið þunguð 25. ágúst. Þú segir þau vera neikvæð en væntanlega hefur þú fengið jákvætt próf úr Yes or No prófinu þar sem þú telur þig þungaða (það er fengið tvö blá strik!!!). Þar sem einungis 4 dagar eru milli samfara með sitt hvorum manninum er eiginlega ómögulegt að segja til um hvor þeirra sé faðirinn!

Miðað við lengd tíðarhringsins hjá þér er líklegt að egglos hafi átt sér stað í kringum 28. ágúst. Hins vegar er þetta einungis meðaltalstölur og í raun allur gangur á hvenær egglos verður í tíðahring konu. Hafi egglos verið til dæmis þá, þá er frekar líklegt að kærasti þinn sé faðirinn. Hafi egglos verið 4 dögum fyrr eða 24. ágúst, þá koma báðir til greina. Ástæðan er sú að sæði getur lifað upp undir 2 - 3 daga í móðurlífi konu og frjóvgað egg á þeim tíma frá samförum.

Það sem þú getur gert í stöðunni er að fara til dæmis á göngudeild kvennadeildar LSH eða til fæðingalæknis og fengið staðfesta þungun og meðgöngulengd með ómun þegar þú gerir ráð fyrir að vera gengin 7 vikur frá fyrsta degi síðustu blæðinga. Það ætti að vera fyrstu eða aðra vikuna af október. Þá færðu væntanlega að vita stærð fóstursins og útfrá því meðgöngulengd í vikum og dögum.

Þar sem um örfáa daga er að ræða milli samfarana á þeim tíma sem líklega hefur orðið egglos tel ég ólíklegt að þú hafir faðernið á hreinu fyrr en barnið er komið í heiminn og þá með blóðrannsókn.

Gangi þér vel,

kveðja
Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir
ljósmóðir/hjúkrunarfræðingur
23. september 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.