Ekki duglegur að drekka

28.08.2006

Halló!

Ég er í vandræðum með að fá 6 mánaða gamlan son minn til að drekka. Hann hætti á brjósti rúmlega 3ja mánaða og hefur drukkið þurrmjólk þar til fyrir rúmri viku að ég fór að gefa honum stoðmjólk. Hann hefur verið óþekkur að drekka síðast liðinn mánuð og það er sama hvað ég býð honum (þurrmjólk, stoðmjólk eða vatn) hann vill lítið sem ekkert drekka. Hann drekkur u.þ.b. 100-170 ml þegar hann vaknar eftir nóttina en eftir það er undantekning ef hann drekkur meira en 100 ml í mál á öðrum tíma dags (u.þ.b.300-400 ml á dag). Hann fær graut í hádeginu og á kvöldin og borðar hann með bestu lyst. Hann er aðeins undir meðal kúrfu í þyngd en er ekki að léttast. Hann virðist samt ekki vera svangur og sefur mjög vel. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?Komdu sæl!


Held þú þurfir ekki að hafa miklar áhyggjur ef drengurinn er ánægður og dafnar vel og það er ekki sterkur litur á þvaginu hans. Þú talar ekki um þyngdina á honum en í mínum bókum stendur, að 6 mánaða gamalt barn, sem vegur 7,3 kg. þurfi að meðaltali 950-1100 ml.af vökva á sólarhring. Þá er talið með bæði það sem hann drekkur og það sem er í grautnum. Vökvaþörf 6 mánaða gamals barns er talin vera 130-155ml. fyrir hvert kíló, sem það vegur, á sólarhring. Þú ættir því að geta reiknað þetta út sjálf. Ef þetta passar engan veginn saman hjá ykkur ættir þú að tala við ungbarnaverndina þína, enda á strákurinn að fara í sex mánaða læknisskoðun og er þá vigtaður í leiðinni.

Vona að þetta svari fyrirspurn þinni. Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. ágúst 2006.