Ekki ráðlagt að eignast fleiri börn eftir meðgöngusykursýki?

29.12.2007

Sælar!

Ég á tvö börn og fékk meðgöngusykursýki með bæði börnin, í síðara skipti var hún insúlínháð og var ég komin í uþb 60 einingar af insúlíni á dag þegar ég fæddi. Það kom mér nokkuð á óvart að hún yrði svona slæm þar sem ég var 20 kílóum léttari í seinna skiptið og nálægt kjörþyngd, læknarnir sögðu að þetta væru þá pottþétt erfðirnar.

Þegar ég var í viðtali eftir fæðinguna á sykursýkisdeildinni sagði læknirinn við mig: „Þú ætlar ekkert að eignast fleiri börn er það?“ með einhverjum skrítnum tóni og augnaráði og ég hef oft velt því fyrir mér síðan þá hvort hann hafi verið að meina að það væri ekki æskilegt fyrir mig að eignast fleiri út af meðgöngusykursýkinni?

Fyrir utan þetta venjulega (barnið getur fengið sykurfall, verið í stærri kantinum o.s.frv) er einhver ástæða fyrir því að ég ætti ekki að eignast fleiri börn? Telst þetta vera slæmt tilfelli af sykursýkinni, þessar 60 einingar á dag?

Ég tek það fram að börnin mín voru mjög nett við fæðingu, fengu ekki sykurfall og sykursýkin gekk til baka hjá mér á endanum þó ég væri á mörkunum fyrst.Sæl og blessuð!

Það er erfitt að fá svona tvíræð skilaboð. Ef þú ert að velta fyrir þér frekari barneignum þá myndi ég ráðleggja þér að ræða málin við fæðinga- og kvensjúkdómalækni. Það gæti verið gott að fara með afrit af mæðraskránum svo að læknirinn geti áttað sig betur á þinni sögu.

Ef þú hefur þurft 60 einingar af insúlíni á dag þá telst það vera meðgöngusykursýki á háu stigi.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. desember 2007.