Spurt og svarað

22. júlí 2004

Ekki viss hver faðirinn er...

Góðan daginn.

Þannig er mál með vexti að ég er ófrísk og komin með 8 vikur 3 daga á leið samkvæmt fæðingarlækni. Ég fór í snemmsónar og hann áætlaði þessa meðgöngulengd bæði útfrá síðustu blæðingum og stærð fóstursins.  Hann sagði að stærð þess væri akkúrat á við þá meðgöngulengd sem hann áætlaði.

En á einhvern hátt er ég óörugg.  Ég hoppaði úr einu sambandi í annað á þessum tíma.  Og hafði síðast samfarir með mínum fyrrverandi kærasta 4 vikum áður en ég var með mínum núverandi.  Þess á milli fór ég á blæðingar á réttum tíma (hef alltaf verið mjög regluleg) og fór meira að segja á mjög miklar blæðingar.  Það sem ég er að velta fyrir mér er að getur verið einhver óvissa hér hver faðirinn er?  Hefði fæðingarlæknirinn ekki séð það á stærð fóstursins?  Það munar talsvert á stærð fóstursins á 4 vikna mismun, er það ekki?

Kær kveðja.

.............................................................

Sæl vertu.

Það er líklega fátt erfiðara en að vera í þeirri óvissu sem þú finnur fyrir núna svo ég geri mitt besta til að greiða úr þessu.  Það er vel þekkt að ómskoðun svona snemma á meðgöngunni geti skeikað nokkuð en sjaldan svo mikið að það muni alveg fjórum vikum.  En ef ég get mér rétt til þá hafa þessir útreikningar fæðingarlæknisins ruglað þig eitthvað í ríminu þar sem þeir stemma ekki við blæðingarnar þínar.  Mundu að vikufjöldinn er alltaf reiknaður út frá fyrsta degi síðustu blæðinga - þannig að ef meðgöngulengdin er 8 vikur 3 dagar þá eru aðeins rúmar 6 vikur síðan barnið var raunverulega búið til (miðað við þessa meðgöngulengd ætti fyrsti dagur síðustu blæðinga að vera í kringum 17. maí, stemmir það?).  Ef þú hefur alltaf verið regluleg og fengið blæðingar á þínum venjulega tíma þá þykir mér mjög ólíklegt að þú getir verið ófrísk eftir þinn fyrrverandi.  Til að taka af allan vafa væri gott að bíða í u.þ.b. 2 vikur og fara þá aftur til fæðingalæknis og fá aftur metna meðgöngulengdina.  Þangað til væri gott að bregða sér í spæjaraskóna og koma öllum dagsetningum á hreint - hvenær fyrsti dagur síðustu blæðinga var, hvenær þú svafst síðast hjá fyrrverandi, hvenær þú svafst fyrst hjá núverandi, hvort einhverjar getnaðarvarnir voru notaðar o.s.frv.  Skýrðu síðan lækninum frá aðstöðu þinni hafir þú ekki þegar gert það, ég er viss um að hann gerir sitt besta til að þið komist til botns í málinu svo þú getir andað rólegar.  Ef þú hefur hins vegar hugsað þér að fara í fóstureyðingu, eða ert að velta því fyrir þér, þá væri kannski skynsamlegra að fara fyrr. Einnig er hugsanlegt, ef þú ert búsett á stór-Reykjavíkursvæðinu að panta viðtal hjá félagsráðgjafa Kvennadeildar Landspítalans (einnig er félagsráðgjafi á Kvennadeild FSA á Akureyri og ef til vill á fleiri stöðum á landinu) , hann gæti svarað spurningum þínum varðandi barnsfaðernismál.  Einnig væri gott ef þú getur treyst einhverjum góðum, vinkonu, mömmu eða öðrum (jafnvel kærastanum) fyrir þessum pælingum, svona mál er erfitt að burðast með einn.

Með von um að þetta hjálpi.

Bestu kveðjur,                                                                             
Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur - 20. júlí, 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.