Engar hægðir í 20 daga

08.09.2006

Sælar ljósmæður!

Hef verið að lesa fyrirspurnir varðandi hægðastopp hér á síðunni en hvergi séð talað um 20 daga án hægða. Minn gaur er 8 vikna og eingöngu á brjósti. Hann hefur alltaf haft hægðir vikulega en nú eru liðnir u.þ.b. 20 dagar. Honum virðist ekki líða neitt illa, er vær, sefur vel og drekkur vel. Á ég nokkuð að hafa áhyggjur af þessu?


Sæl og blessuð.

Nei, þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur ef barnið er eingöngu á brjósti og því líður vel. Metið sem ég veit um eru 28 dagar en þeir gætu jafnvel orðið fleiri. Yfirleitt er þetta merki um sérlega góða nýtingu á næringu. Það verður bara ekkert eftir.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. september 2006.