Er í lagi að blanda þurrmjólk í mat barnsins?

01.03.2006

Sonur minn er orðin 7 mánaða og byrjaður að borða barnamat og grauta. Mjólkurþörfin er því að minnka hratt. Ég á miklar birgðir af þurrmjólk, 3 stóra bauka. Spurningin er eftirfarandi: Er í lagi að blanda þurrmjólk í matinn barnsins? Er hætta á að barnið fá of mikla næringu? 

Kveðja,  Jón.

......................................................................................................


 Komdu sæll, Jón!

Það er jákvætt, að sonur þinn er farinn að æfa sig í að borða fasta fæðu, þar sem hann er orðinn sjö mánaða gamall. Það er í lagi, að blanda þurrmjólk í grautana þ.e. réttri blöndu af henni. Annars er mælt með stoðmjólk fyrir börn frá sex til tólf mánaða. Þú segist eiga miklar birgðir af þurrmjólk en hún hefur takmarkað geymsluþol og er því vert að huga að merkingu utan á baukunum varðandi það.  Hvort hægt er að gefa of mikla næringu, er það vissulega hægt og fer það eftir magni þess sem gefið er og aldri barnsins. Vil í því sambandi benda þér á að styðjast við bækling heilsugæslunnar um Næringu ungbarna, sem er afhentur foreldrum í ung-og smábarnaverndinni eða er hægt að kaupa hjá heilsugæslunni á kr. 200.-  Þegar barnið fer í átta mánaða skoðun í ung-og smábarnaverndinni gefst tækifæri þar til að ræða mataræðið drengsins við hjúkrunarfræðinginn eða gegnum síma hvenær sem er.

Gangi ykkur vel. 

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
1. mars 2006.